Hópsýkingar tengdar við jólahlaðborð

Jólahlaðborð eru fastur liður í jólaundirbúningi margra.
Jólahlaðborð eru fastur liður í jólaundirbúningi margra. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkrar hópsýkingar Covid-19 hafa komið upp í tengslum við standandi jólahlaðborð. Frá þessu greinir sóttvarnalæknir á vefnum covid.is.

Segir hann fyllstu ástæðu til að hvetja alla til að leggja af standandi hlaðborð en afgreiða þess í stað gesti í sæti.

„Einnig eru hópsmit að koma upp hjá fólki sem dregið hefur að fara í sýnatöku og er því enn og aftur ástæða til að hvetja alla sem eru með einkenni sem bent geta til Covid-19 að fara í PCR-próf og halda sig til hlés þar til niðurstaða liggur fyrir,“ segir í pistli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.

Nýgengi veirunnar hafi dvínað hægt og bítandi undanfarna daga og vikur. Hins vegar séu enn að koma upp hópsýkingar hér og þar, sem hægi á þeirri fækkun smita sem vonast sé eftir.

Tuttugu greinst með ómíkron í dag

Þórólfur bendir á að í dag hafi alls 20 manns greinst hér á landi með ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar.

„Þessi smit tengjast ferðum frá útlöndum, Nígeríu, Danmörku, Írlandi og Þýskalandi. Innanlandssmit af völdum afbrigðisins tengjast enn sem komið er einungis smiti frá Nígeríu.“

Af þessum 20 þá séu 18 fullbólusettir með tveimur skömmtum og tveir fengið örvunarskammt. Enginn er alvarlega veikur enn sem komið er.

Segir mikilvægt að allir mæti í bólusetningu

„Það er ljóst að ómíkron-afbrigðið hefur dreifst víða og líklegt að það fyrirfinnist í flestum löndum. Enn er ekki hægt að fullyrða hvort það valdi alvarlegri einkennum en delta-afbrigðið og á þessari stundu er ekki ljóst hvort þeir sem fengið hafa Covid-19 eða verið bólusettir séu verndaðir gegn smiti.

Þar sem Delta-afbrigði kórónaveirunnar er enn í miklum meirihluta hér og erlendis er mikilvægt að allir mæti í bólusetningu og þiggi jafnframt örvunarskammt. Ávinningur af bólusetningu og sérstaklega örvunarskammti er ótvíræður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert