Reyktu kannabis í bílakjallara

Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í …
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna manna að reykja kannabis í bílakjallara í Reykjavík um klukkan hálfátta í gærkvöldi. Þeir voru sagðir setja af stað brunaviðvörun með hátterninu. Mennirnir voru farnir þegar lögregla kom á staðinn.

Lögreglan rannsakaði meinta líkamsárás og vopnalagabrot í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ um hálfníuleytið í gærkvöldi. Barnavernd og foreldrar voru á staðnum þar sem aðilar höfðu ekki náð 18 ára aldri, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Á áttunda tímanum í gærkvöldi sinntu lögregla og sjúkralið slysi þar sem maður hafði fallið og hlotið höfuðhögg. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Lögregla var kölluð til um áttaleytið í gærkvöldi til að aðstoða starfsmenn sambýlis vegna skjólstæðings sem lét ófriðlega. Ekki reyndist þörf á aðstoð lögreglu.

Tilkynning um bílveltu barst um svipað leyti í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ. Tveir menn voru í bifreiðinni en meiðsli þeirra voru minni háttar.

Hávaði í framkvæmdum

Laust fyrir klukkan átta var tilkynnt um framkvæmdahávaða. Um að ræða sérstaklega hávaðasamar framkvæmdir sem eru óheimilar á þessum tíma. Verktaki hætti að beiðni lögreglu.

Tilkynnt var um umferðaróhapp laust fyrir klukkan 21 í gærkvöldi. Einn slasaðist en talið er að meiðslin séu minni háttar. Dráttarbifreið fjarlægði bifreiðar. Grunur um að biðskylda hafi ekki verið virt og illa hreinsaðar rúður voru á öðru ökutækinu.

Tilkynning barst upp úr klukkan hálfellefu í gærkvöldi um umferðaróhapp og afstungu. Málið er í rannsókn.

Laust fyrir klukkan þrjú í nótt var tilkynnt um menn að hringja dyrabjöllum og vekja fólk í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ. Voru þeir farnir þegar lögregla kom á vettvang. Bifreið sem þeir komu á var á staðnum. Skráningarmerki voru tekin af sökum vanrækslu á aðalskoðun.

mbl.is