Þriggja milljarða áætlun við Fossvogsbrú

Nýja Fossvogsbrúin samkvæmt vinningstillögu Eflu og BEAM. Hér er horft …
Nýja Fossvogsbrúin samkvæmt vinningstillögu Eflu og BEAM. Hér er horft yfir brúna Reykjavíkurmegin og yfir á Kársnes. Teikning/Efla og BEAM

Hönnun nýrrar vinningstillögu að brú yfir Fossvog byggir á sterkum kantbitum sem mynda burðarvirkið en eiga á sama tíma að dempa vind á brúnni. Þar sem hæst verður undir brúna verða 6,4 metrar. Það dugir hins vegar ekki til að skútur geti farið þar undir og því þýðir að siglingarklúbbar sitt hvoru megin við Fossvog munu þurfa að flytja starfsemi sína. Ekki var hins vegar hægt að hækka brúna frekar vegna hæðarhindrunar sem stafar af nálægð við flugvöllinn. Áætlaður kostnaður samkvæmt vinningstillögunni, sem ber nafnið Alda, er um þrír milljarðar.

Magnús Arason, byggingarverkfræðingur hjá Eflu verkfræðistofu og einn af forsvarsmönnum vinningstillögunnar, segir í samtali við mbl.is að brúin hafi verið hönnuð í samstarfi við norska arkitekta hjá BEAM Architects. Brúarteymi Eflu hafi undanfarin ár starfað jöfnum höndum hér heima og í Noregi og í tvígang starfað með BEAM, meðal annars við göngubrú við Ullevaal þjóðarleikvanginn í Ósló. „Þetta eru menn sem eru sérhæfðir í þessu og hafa bara hannað brýr í 30 ár,“ segir Magnús og bætir við að báðir aðilar hafi komið að mótun hugmyndarinnar frá upphafi.

Fossvogsbrúin að kvöldi samkvæmt vinningstillögu Öldu.
Fossvogsbrúin að kvöldi samkvæmt vinningstillögu Öldu. Mynd/Efla og BEAM

Hæðarhindranir og hjólandi umferð útgangspunktar

Nokkrir útgangspunktar voru þegar kom að hönnun brúarinnar. Í fyrsta lagi þurfti að huga að fyrrnefndum hæðarmörkum, en nærri flugvellinum máttu mannvirki ekki fara yfir 4-5 metra. Þá segir Magnús að einn mikilvægasti notendahópur brúarinnar verði líklega samgönguhjólreiðafólk á leið frá Kópavogi, Garðbæ og Hafnarfirði í Reykjavík, eða öfugt. Því hafi áhersla verið sett á að gera þessum hópi hátt undir höfði og hafa hraðari umferð hjólandi á sérrein vestan megin á brúnni og svo gangandi og þá sem vilja frekar hjóla hægt austan megin og þar með með góða sjónræna tengingu við allt sem er við Fossvoginn.

Út frá fyrri áhersluatriðinu voru í raun bara tveir möguleikar í stöðunni að sögn Magnúsar. Annað hvort væri notast við svokallaða bitabrú eða bogabrú með undirliggjandi boga. Efla og BEAM hafi ákveðið að horfa sérstaklega til bitabrúarinnar, en dæmi um bogabrú með undirliggjandi boga megi meðal annars sjá í öðrum tillögum sem voru í efstu þremur sætunum. „Hengi- eða stagbrýr komu ekki til greina vegna nálægðar og hindrunarflata við flugvöllinn,“ segir Magnús.

Brúin verður með þremur 60 metra höfum og 45 metra …
Brúin verður með þremur 60 metra höfum og 45 metra endahöfum sitt hvoru megin. Teikning/Efla og BEAM

60 metra höf og 6,4 metrar undir hæsta punkt

Varðandi fjölda stöpla segir Magnús að horft hafi verið til hagkvæmni, en þrjú 60 metra höf eru á brúnni auk 45 metra endahafa. „Með því að fara í 60 metra erum við í efri mörkum varðandi hagkvæma hafskiptingu,“ segir hann.

Eins og fyrr segir verður fríhaf mest 6,4 metrar undir brúnni. „Þetta þýðir því að siglingaklúbbarnir þurfa að færa sig,“ segir Magnús. Það hafi hins vegar legið fyrir frá því að byrjað var að ræða um brúna enda fari fyrrnefndir hindrunarfletir vegna flugvallarins og siglingarmál ekki saman. Magnús segir hins vegar að áhrif brúarinnar á vatnsskipti og straumhraða í Fossvogi eigi að verða lítil. Það hafi meðal annars verið eitt af atriðunum sem horft hafi verið til þegar ákveðið var að hafa ekki styttra á milli stöpla.

Hlykkir í kringum álfasteina

Seinni útgangspunkturinn sneri að hjólandi umferð og segir Magnús að samkvæmt deiliskipulagi hafi verið gert ráð fyrir að hjólandi umferð og gangandi væru sömu megin á brúnni. Þau hafi hins vegar viljað tryggja að samgönguumferðin fengi sem frjálsast flæði og því hafi þau haft sér hjólareinar vestan megin en göngustíg austan megin. Magnús segir að sú hugmynd hafi einnig opnað á að láta t.d. áningastaði austan megin njóta sín betur. Áningastaðirnir eru þrír samkvæmt tillögunum og segir Magnús að þeir séu kallaðir álfasteinar. „Það er skírskotun í að þegar álfasteinn er á leið manna þurfi að hlykkja leið sinni framhjá þeim og það er það sem gerum þarna,“ segir Magnús. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru einmitt hlykkir á austurhlutanum við áningastaðina. Jafnframt mynda þessir hlykkir öldulaga útlit brúarinnar og segir Magnús að þaðan hafi nafnið Alda, sem verkefnið fékk að lokum, komið.

Gert er ráð fyrir þremur áningarstöðum á brúnni, tveimur á …
Gert er ráð fyrir þremur áningarstöðum á brúnni, tveimur á landi Reykjavíkurmegin og einum á landi í Kópavogi. Hér má sjá hvernig áningastaðirnir á brúnni eiga að hlykkast til, en vegna þess fengu þeir nafnið álfasteinar. Teikning/Efla og BEAM

Kantbitarnir brjóta vindinn

Fyrir hjólandi umferð skiptir vindur talsverðu máli og sérstaklega þegar hjóla á yfir brú sem þessa fyrir opnu hafi. Magnús segir að þetta hafi spilað inn í ákvörðunin um að hafa bitabrú með stórum kantbitum. Miðað við vindgreiningu sem hópurinn hafi gert eigi kantbitarnir að brjóta vindinn þannig að hann dempist niður og fari yfir brúna. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru kantbitarnir hins vegar misháir eftir því hvar á brúnni þeir eru. Magnús segir að þeir séu hæstir við stöplana þar sem áraunin í tengslum við burðargetuna sé mest. Þar eigi jafnframt mesta skjólið að nást. Segir Magnús að önnur burðarform brúa, hvort sem það væri með burði í gólfi eða með hengibrú ekki skila jafn miklum vindáhrifum.

Á göngustígnum á brúnni verður notast við áhrifslýsingu, en Magnús segir að það verði lýsing að neðan. Verði hún meðfram austurkantinum og við álfasteinana. Þá bendir hann á að í tillögunni sé einnig að finna útfærslur á áningastöðum sitt hvoru megin við brúna. Annars vegar tvo staði Reykjavíkurmegin og einn Kópavogsmegin. Segir hann að á ytri stöðunum sem vísa til hafs sé þeim stillt upp þannig að miðað sé á ákveðin kennileiti. Þannig miði syðri áningastaðurinn á Snæfellsjökul, en sá nyrðri á Bessastaði.

Þriggja milljarða kostnaðarmat

Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að brúin verði úr ryðfríu stáli. Segir Magnús það vera nokkuð framsækið efnisval þegar komi að svona brú og að hópurinn hafi tekið nokkra snúninga áður en þau þorðu að setja hugmyndina fram. Valið sé hins vegar m.a. byggt á líftímakostnaðargreingu þar sem bæði sé horft til upphafskostnaðar og líka viðhaldskostnaðar. Með hefðbundið stál hefði þurft að ráðast í málningarvinnu eftir um 25 ár og slíkt sé ekki ódýrt yfir hafi, auk þess sem það rýrir notagildið meðan framkvæmdir standi yfir. Lausnin hafi því verið að velja ryðfrítt þó það sé dýrara til að byrja með.

Eitt af því sem þurfti að skila inn samhliða hönnunartillögum í keppnina var kostnaðarmat. Spurður út í áætlaðan kostnað við brúna segir Magnús að hann sé um þrír milljarðar.

Fyrr á árinu var fyrsta framkvæmdalota borgarlínu kynnt, en um er að ræða samtals 14 km langa leið frá Ártúnshöfða niður í miðbæ og yfir Fossvoginn í Hamraborg. Eiga framkvæmdir í lotunni að standa yfir frá 2021 til 2025. Á leiðinni verða tvær brýr. Fossvogsbrúin sem hér hefur verið rætt um og brú yfir Elliðaárvoga. Samkvæmt kostnaðaráætlun fyrstu framkvæmdalotu er gert ráð fyrir samtals 24,9 milljörðum, en sam­hliða upp­bygg­ingu borg­ar­línu er gert ráð fyr­ir 18 km af nýj­um hjóla­stíg­um og 9 km af göngu­stíg­um. Kom fram í kostnaðarmatinu að heildarkostnaður brúa væri 5 milljarðar í þessari lotu.

Tillagan sem bar nafnið Alda varð hlutskörpust í hönnunarkeppninni. Hér …
Tillagan sem bar nafnið Alda varð hlutskörpust í hönnunarkeppninni. Hér má meðal annars sjá hvernig áformað er að kantbitarnir eru að mismunandi hæð. Er gert ráð fyrir að þeir muni ná að brjóta upp vind fyrir umferð á brúnni. Teikning/Efla og BEAM

Ásamt Magnúsi eru í vinningshópnum verkfræðingarnir Kristján Uni Óskarsson, Berglind Hallgrímsdóttir, Nína Gall Jörgensen, Guðrún María Guðjónsdóttir, Andri Gunnarsson og Baldvin Einarsson, en þau eru öll hjá Eflu. Þá koma arkitektarnir James Marks og Keith Brownlie frá BEAM architects. Landslagsarkitektarnir Ómar Ingþórsson og Svana Rún Hermannsdóttir koma frá Eflu, en lýsingarhönnuðir voru Kevan Shaw og Sara Tobalina del Val frá KSLD og Jarþrúður Þórarinsdóttir frá Eflu. Að lokum kemur að verkefninu Þröstur Thor Bragason miðlunarfræðingur sem einnig er hjá Eflu.

Magnús segir að í hönnunarkeppninni hafi verið lagt upp með að gengið yrði til samninga við höfunda vinningstillögunnar um hönnun. „Okkur hlakkar til þessa verkefnis og það er mikill spenningur fyrir þessu,“ segir hann. „Þetta er verkefni sem fólk brennur fyrir, eitthvað sem er í nærumhverfinu og mun setja svip sinn á borgina,“ bætir Magnús við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert