Kæmi á óvart ef það væri ekki áhugi

Eyþór segist fagna fleiri framboðum.
Eyþór segist fagna fleiri framboðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segist fagna því að fólk gefi kost á sér til trúnaðarstarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það sé merki um að eftirsóknarvert sé að vera í forystusveit fyrir næstu borgarstjórnarkosningar.

„Það kæmi á óvart ef það væri ekki áhugi fyrir því taka þátt. Við finnum fyrir því að okkar áherslur eiga góðan meðbyr hjá fólkinu,“ segir Eyþór í samtali við mbl.is, inntur eftir viðbrögðum við því að Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ætli að sækjast eftir fyrsta sæti á lista flokksins í borgarstjórnarkosningum í vor.

Eyþór hafði áður tilkynnt að hann sæktist eftir endurkjöri, en Hildur tilkynnti um áform sín í gærkvöldi. Bæði á facebook-síðu sinni og í viðtali í Íslandi í dag.

Eyþór segir það alls ekki koma á óvart að mótframboð komi fram. Í síðasta prófkjöri hafi fimm tekist á um að leiða listann og hann eigi því allt eins von á að fleiri framboð komi fram. „Hingað til hef ég alltaf sótt umboð mitt í prófkjöri þar sem fleiri hafa sóst eftir því að leiða. Bæði hérna í Reykjavík og Árborg.“

Skipulagsmálin „risastórt mál“

Spurður út í það hvort áherslur þeirra séu ólíkar segir Eyþór að þau mál sem Hildur setji fram sem sín baráttumál, meðal annars leikskóla- og samgöngumál, hafi verið hluti af áherslumálum Sjálfstæðismanna í borginni á kjörtímabilinu. En hann minnir líka á húsnæðismálin sem aldrei megi gleyma, að hans sögn.

„Af því það eru mál sem varða okkur öll, bæði þá sem kaupa og leigja. Á síðustu mánuðum hefur leiguverð hækkað um 21 prósent og húsnæðisverð um 17 prósent. Þá hefur íbúðum í sölu í Reykjavík fækkað um um 70 prósent. Þannig það er eitt af stóru verkefnunum á næsta kjörtímabili að að skipuleggja nýtt land. Ég tel að skipulagsmálin séu risastórt mál.“

Telur að mikilla breytinga sé að vænta

Aðspurður hvort hann sé stressaður yfir baráttunni sem framundan er, segist hann vanur að vera á sviði, bæði hinu pólitíska sviði og á tónleikum. „Það er bara heilbrigt að vera spenntur fyrir verkefnunum. Þetta er kannski svona upptaktur að kosningabaráttunni. Ég er líka spenntur að sjá hverjir verða í framboði fyrir hina flokkana og ég held að við eigum eftir að sjá miklar breytingar fram á vorið og ennþá meiri breytingar í vor.“

Hann segir það ekki liggja fyrir ennþá hvort aftur verði farið í leiðtogaprófkjör líkt og fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. „Nú er það  í höndum flokksmanna að velja leiðina og hvenær og hvernig verður stillt upp á lista. Ég er pollrólegur yfir því og bíð bara eftir niðurstöðu hjá félögum okkar í Sjálfstæðisflokknum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert