Óttuðust geislavirkni í Háskólanum á Akureyri

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri. Ljósmynd/Háskólinn á Akureyri

Torkennilegur hlutur fannst í kjallara Háskólans á Akureyri í fyrradag. Maður sem komst í snertingu við hlutinn og veiktist hastarlega var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri. Þar var hann settur í einangrun til öryggis.

Svæðinu í kjallaranum lokað og aðrir starfsmenn sem höfðu verið þar voru skoðaðir. Enginn þeirra kenndi sér meins, að því er kemur fram í frétt Akureyrar.net.

Starfsmenn Geislavarna ríkisins rannsökuðu hlutinn, sem er stór geymsluhólkur. Niðurstaða þeirra var að engin geislavirkni mældist eins og óttast var í fyrstu, hvorki í búnaðinum né í kjallara bókasafnsins, þar sem hluturinn var.

Starfsmaðurinn sem veiktist, sem er húsvörður í skólanum, fékk að fara heim af sjúkrahúsinu í gær.

Eyjólfur S. Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir engan núverandi starfsmanna skólans kannast við hlutinn sem fannst. Hann hljóti að hafa legið í kjallara bókasafnsins í að minnsta kosti 20 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert