Gagnrýna opinber framlög í nýja streymisveitu

Frá streymisveitu Uppkasts.
Frá streymisveitu Uppkasts. Mynd/Skjáskot

Nýsköpunarfyrirtækið Uppkast, sem þróað hefur íslenska streymisveitu, ganrýnir að ráðstafa eigi um 510 milljónum króna í gerð streymisveitu og önnur verkefni fyrir íslenskt sjónvarpsefni í samkeppni við einkaaðila. 

Í umsögn Uppkasts að fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022, þar sem gert er ráð fyrir útgjaldaheimild vegna streymisveitunnuar, segir að ekkert í nýjum kvikmyndalögum kveði á um að Kvikmyndamiðstöð skuli reka streymisveitu „og enn síður að hún skuli stofna til samkeppni við einkaaðila sem nú þegar er að sinna markmiðum Kvikmyndastefnu um að dreifa aðeins íslensku efni.“

Höfðu ekki áhuga á samstarfi

Rekið er að Uppkast hafi, vegna frétta af nýrri streymisveitu, sett sig í samband við Kvikmyndamiðstöð í sumar og kynnt þjónustu sína. Kvikmyndamiðstöð hafi ekki haft áhuga á samstarfi við Uppkast og ákveðið að ráðist yrði í þróun á eigin streymisveitu. 

„Ljóst er að kvikmyndaarfur Íslendinga er geymdur á ýmsum formum, svo sem filmum, og ekki með skipulegum eða miðlægum hætti. Mikið er í húfi til að koma honum á rafrænt form og varðveita hann með öruggum hætti. Þróun sérstakrar streymisveitu til að dreifa þessum kvikmyndaarfi er hins vegar annað mál, ekki frekar en að opinberar stofnanir hefji sölu á t.d. mjólkurvörum í samkeppni við þá aðila sem nú þegar selja mjólkurvörur og aðrar dagvörur. Hafi Kvikmyndamiðstöð sérþarfir til að dreifa efninu væri án vafa hagkvæmara að gera þjónustusamninga við aðila sem nú þegar reka streymisveitur sem eingöngu eru með íslensku efni, en kostnaður við það væri aðeins brot af þeim kostnaði sem stofnun nýrrar ríkisstreymisveitu kostar, bæði í upphafi og um ókomna framtíð,“ segir í umsögn Uppkasts. 

Í niðurlagi umsagnarinnar segir að þannig sé ríkið komið í beina samkeppni við nýsköpunarfyrirtæki í atvinnulífinu og óskað er eftir fundi með fjárlaganefnd Alþingis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert