Mygla greinist í skammtímaheimili fyrir ungmenni

Húsnæðið í Hraunbergi var rýmt eftir að niðurstöður um myglu …
Húsnæðið í Hraunbergi var rýmt eftir að niðurstöður um myglu lágu fyrir og starfsemin flutt í bráðabirgðahúsnæði.

Starfsemi Hraunbergs, skammtímaheimilis fyrir ungmenni á vegum Barnaverndar Reykjavíkur, hefur verið flutt vegna myglu sem greindist í húsnæðinu. Heimilið er nú komið í bráðabirgðahúsnæði og er stefnt að flutningi í nýtt varanlegt húsnæði á næstu mánuðum. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Hraunberg er ætlað fjórum ungmennum á aldrinum 13–18 ára, sem þurfa tímabundna vistun utan heimilis vegna sérstakra aðstæðna. Í Hraunbergi er bæði skammtímavistun og bráðavistun. Misjafnt er hversu lengi ungmenni dvelja í Hraunbergi og fer það allt eftir aðstæðum hjá hverju barni. 

Borgin greinir frá því að í byrjun vikunnar hafi borist niðurstöður úr sýnatöku sem sýndu að mygla hafði greinst á nokkrum stöðum í húsinu. Var því brugðist við og húsnæðið rýmt og starfsemin flutt. Á heimilinu búa um þessar mundir þrjú ungmenni. Haft hefur verið samband við þau og foreldra þeirra og málið kynnt.

mbl.is