Svarar fyrir sig og sakar Finnboga um stuld

Bergsveinn Birgisson og Finnbogi Hermannsson.
Bergsveinn Birgisson og Finnbogi Hermannsson.

Bergsveinn Birgisson rithöfundur segir kollega sinn Finnboga Hermannsson skorta frumlega hugsun. Svarar hann Finnboga, sem sakaði Bergsvein um ritstuld í Morgunblaðinu í dag, og þvertekur fyrir að hafa stolið orðalagi úr bók hans.

Forsaga málsins er sú að árið 2003 sendi Finn­bogi frá sér bók­ina Ein­ræður Stein­ólfs, sem var ævi­saga Stein­ólfs Lárus­son­ar, bónda í Ytri-Fagra­dal á Skarðsströnd í Döl­um – jafn­hliða því að vera lýs­ing á ýms­um staðhátt­um þar um slóðir. Í þeirri bók (bls. 106) seg­ir þar m.a. frá Ballará á Skarðsströnd sem hafi fyrr á tíð verið „sjálf­skipaður án­ing­arstaður“ þegar riðið var fyr­ir Klofn­ing.

Þykir Finnboga sem Bergsveinn hafi stolið orðalagi þaðan þegar hann skrifaði svo bók sína Svar við bréfi Helgu, eins og rakið er hér.

Í grein sem Bergsveinn skrifar á Vísi nú í kvöld svarar hann fyrir sig. Segist hann raunar hafa þegar gert það, árið 2010, „þegar hann bar þetta á mig fyrst, en hann hefur að því er virðist gleymt“.

Bendir Bergsveinn á að orðalagið hafi hann ekki fengið að láni úr bók Finnboga, heldur frá Steinólfi sjálfum.

Farið á mis við frumlega hugsun

„Orðin hef ég þó ekki úr bókinni, heldur beint úr frásagnargleði Steinólfs frænda míns sjálfs, þar sem ég var svo lánsamur að fá að vera húsgangur á hans bæ í mínum ungdómi. Sú saga, með þessu orðalagi, var mér sögð löngu áður en Finnbogi heyrði hana,“ skrifar Bergsveinn.

„Sá sem á umrædd orð var nefnilega gæddur nokkru sem Finnbogi Hermannsson hefur farið á mis við, en það er frumleg hugsun. Bera orðin sjálf því vitni af hvers rótum renna. Kröfu Finnboga um eignarrétt á orðum Steinólfs mætti helst líkja við það, að ef einhver sem tæki þátt í að gefa út ljóð Einars Benediktssonar myndi eigna sér ljóð Einars Benediktssonar.“

Þá hafi hann jafnframt getið Steinólfs í athugasemdum aftast í bók sinni.

Hinn eini sanni stuldur

„En úr því að Finnbogi Hermannsson vekur málið upp, er óhjákvæmilegt að geta þess hvernig hann sjálfur hefur komið fram gagnvart þessum látna frænda mínum og afkomendum hans. Þannig var mál með vexti að útgáfan Þjóðsaga var lögð niður nokkrum árum síðar, svo enginn var til að reka rétt þeirrar útgáfu,“ skrifar Bergsveinn áfram.

„Það nýtti Finnbogi sér, og tók handritið að bók Steinólfs án þess að spyrja nokkurn mann og gaf sjálfur út árið 2019. Þar gætti Finnbogi þess að setja aðeins nafns sjálfs sín bakvið copyright-merkið, og er þar um hinn eina sanna stuld að ræða og mæli sá maður armastur. Var það gert í óþökk afkomenda Steinólfs og án þeirra samþykkis, sem hljóta þó að teljast hinir réttmætu eigendur að verki hans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert