Ófrumlegur en ekki þjófur

Bergsveinn Birgisson og Finnbogi Hermannsson.
Bergsveinn Birgisson og Finnbogi Hermannsson.

Finnbogi Hermannsson rithöfundur segir Steinólf Lárusson hafa beðið sig um að skrifa ævisögu sína árið 2002. Hann hafi því ekki gefið út ævisögu Steinólfs að afkomendum og frændfólki Steinólfs forspurðu, þó hann hafi látið endurprenta bókina árið 2019.

Þannig svarar Finnbogi grein Bergsveins Birgissonar rithöfundar á Vísi í dag, en Bergsveinn fékk þar birta grein í gærkvöldi þar sem hann svaraði ásökunum Finnboga um ritstuld. 

Í Morgunblaðinu í gær sagði Finnbogi að Bergsveinn hefði fengið eitt og annað lánað úr bók sinni, Einræður Steinólfs, þegar hann skrifaði bókina Svar við bréfi Helgu. Sakaði hann þar Bergsvein um ritstuld. 

Bergsveinn hafði áður stigið fram og sakað Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra um ritstuld í sinni bók, Eyjan hans Ingólfs. Sagði Bergsveinn Ásgeir hafa byggt bókina á bók sinni Leitin að svarta víkingnum, án þess að geta heimilda. 

Í gærkvöldi steig Bergsveinn fram á ritvöllinn og svaraði Finnboga fullum hálsi.

Þar þvertók hann fyrir að hafa stolið orðalagi úr bók Finnboga og sagðist hafa byggt á frásagnargleði Steinólfs sjálfs, sem var frændi hans og tíður gestur á æskuheimili hans.

Hann vakti einnig athygli á því að Finnbogi hefði gefið aftur út bók Steinólfs árið 2019, „án þess að spyrja nokkurn mann“.

Fimbulfamb um frændsemi út í hött

„Til að halda öllu til haga þá var það Steinólfur Lárusson sem bað mig um að skrifa ævisögu sína árið 2002 og ég játti því. Hún varð „best[s]eller“ 2003 og prentuð tvisvar ári seinna, 2003. Bókin varð fljótt með öllu uppseld og ákvað ég því að gefa hana aftur út í smáu upplagi árið 2019 með viðbótum,“ skrifar Finnbogi í greininni sem hann nefnir Svar við bréfi Bergsveins og vísar þar í bókartitil Bergsveins. 

Finnbogi segist þó geta verið hjartanlega sammála Bergsveini um að hann skorti frumleika. Að honum hafi hann verið að leita að í hátt í 80 ár, en að hann væri ekki kominn lengra en sem þessu nemur.

Hann segir rangt hjá Bergsveini að hann hafi tekið sér allan heiðurinn heldur hafi bæði nafn hans og Steinólfs Lárussonar verið á bakvið „copyright-merkið“ og lætur mynd til sönnunar fylgja.

„Raunar er þetta smjörklípuaðferð rökþrota skálds sem staðinn hefur verið að ritstuldi á sjö ára gömlu efni frá skáldyrðingi vestur á fjörðum. Eitthvert fimbulfamb um frændsemi og því um líkt er út í hött. Lýk ég svo þessu svari við bréfi Bergsveins og óska honum alls velfarnaðar,“ skrifar Finnbogi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert