Börnum á aldrinum 5-11 ára boðin bólusetning

Börnum á aldrinum 5-11 ára verður boðin bólusetning eftir áramót.
Börnum á aldrinum 5-11 ára verður boðin bólusetning eftir áramót. AFP

Börnum á aldrinum 5-11 ára verður boðin bólusetning við Covid-19 eftir áramót. Þetta staðfestir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir í samtali við mbl.is.

„Sennilega munu þessar bólusetningar fara fram í annarri vikunni í janúar,“ segir hann.

Faraldurinn valdi mikilli röskun á lífi barna

Upplýsingar liggja nú fyrir um að börn séu að leggjast alvarlega veik inn á spítala vegna veirunnar í bæði Bandaríkjunum sem og öðrum Evrópulöndum og því er fyllsta ástæða til að bjóða ofangreindum aldurshópi bólusetningu gegn veirunni, að sögn Þórólfs.

Hann segir yfirstandandi bylgju faraldursins drifna áfram af börnum og að bólusetningar þeirra muni ekki einungis hjálpa við að kveða smitin niður heldur einnig að draga úr neikvæðum áhrifum veirunnar á daglegt líf barna.

„Veiran getur valdið mikilli röskun á daglegu lífi þessara barna. Menn hafa haft miklar áhyggjur af því að það geti líka haft varanleg og slæm áhrif á börnin svo það er fyllsta ástæða til þess að reyna koma í veg fyrir það. Fyrst og fremst erum við bara að hugsa um hag barnanna sjálfra.“

Segir tilkynningu væntanlega síðar í dag

Bóluefnin eru þó ekki væntanleg fyrr en í lok desember og leysa þarf ýmis mál  áður en hægt verður að ráðast í bólusetningar hjá ofangreindum aldurshópi, að sögn Þórólfs.

„Það eru bæði mál innan heilsugæslunnar hvað varðar framkvæmdina og svo er ýmislegt sem þarf að leysa lögformlega varðandi þá bólusetningu.“

Þórólfur segir tilkynningu um bólusetningu barna á aldrinum 5-11 væntanlega á covid.is í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina