Skjálftarnir ekki merki um gosóróa

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir Heklu varasamt eldfjall.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir Heklu varasamt eldfjall. mbl.is/Sigurður Bogi

Skjálftarnir í Vatnafjöllum fyrr í dag eru ekki merki um gosóróa í Heklu heldur er þetta framhald af skjálftahrinu sem hófst í nóvember, að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. 

Sex skjálftar mældust á sjö mínútna tímabili rétt eftir klukkan fjögur í dag. Sá stærsti var 3,5 að stærð, ann­ar 3,2 að stærð og sá þriðji 3,0.

„Það er ekki á hverjum degi sem það koma skjálftar yfir þrjá á svæðinu en þetta er ekkert merkilegt. Ekkert sem við kippum okkur upp við,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðingur í samtali við mbl.is.

Vísbendingar um gos

Vísbendingar hafa verið uppi um að Hekla sé að búa sig undir eldgos en eldfjallið hefur verið í sífelldri þenslu frá því að það gaus síðast árið 2000. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur hefur varað við því að Hekla sé varasöm að því leytinu til að hún geti gosið með skömmum fyrirvara.

Fyrr í mánuðinum var einnig vatn horfið úr lindum og sprænum í Rangárbotnum og vakti Páll Imsland jarðfræðingur athygli á því að slík vatnsþurrð hefði einnig komið upp í aðdraganda Heklugossins árið 1947. 

Tengjast fleka á hreyfingu

Spurður hvort að skjálftarnir geti mögulega verið vísir að auknum gosóróa í Heklu, segir Bjarki ekki svo vera.

Að hans sögn má rekja skjálftana til jarðskjálftahrinu sem hófst í Vatnafjöllum þann 11. nóvember og tengjast þeir fleka sem hefur verið á hreyfingu. Enn sem stendur eru engin gögn sem vísa til þess að skjálftarnir tengist Heklu. 

„Þetta gæti þróast í allt mögulegt en þetta eru bara skjálftar í Vatnafjöllum núna.“

mbl.is