Tíminn knappur en nefndarformaður er bjartsýnn

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fjárlaganefnd Alþingis verður að hafa hraðar hendur næstu daga ef nást á að samþykkja fjárlög næsta árs fyrir áramót. Formaður nefndarinnar, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (VG), segir að störf nefndarinnar hafi gengið vel og að vel sé hægt að klára fjárlögin fyrir áramót.

„Alla síðustu viku vorum við að taka á móti ráðuneytunum og skrifstofu Alþingis, kláruðum það á föstudag. Nú erum við að fá til okkar stærstu hagsmunaaðilana, við fengum til okkar Samtök atvinnulífsins í dag og ASÍ, og þetta hefur gengið ljómandi vel fram að þessu,“ segir Bjarkey við mbl.is, en nefndin fundaði í morgun. 

Þurfa að „sjá á spil“ ráðherra

Það verður gestagangur á nefndarsviðinu alla vikuna, segir Bjarkey. Þá verða rædd sjónarmið ýmissa hagsmunaaðila til þess að gera megi viðeigandi breytingar á fjárlagafrumvarpinu.

„Svo verður vonandi nefndardagur á föstudag þar sem við getum klappað þessu saman og gert tilbúið til frekari afgreiðslu. Þær eru ítarlegar umsagnirnar og góðar. Við tökum á móti gestum alla vikuna og setjumst svo saman niður í nefndinni undir lok vikunnar og förum saman yfir hvort þurfi að gera breytingar og hvort við sammælumst um þær,“ segir Bjarki.

Bjarkey segir enn fremur að síðan verði ríkisstjórnin sjálf að koma sínum sjónarmiðum á framfæri áður en fjárlögin verða endanlega samþykkt.

„Við þurfum svolítið að sjá á þeirra spil áður en við sem nefnd klárum okkar störf.“

Verða fjárlögin afgreidd fyrir lok árs?

„Við ætlum að reyna að fara í seinni umræður strax í næstu viku, það er stefnan, svo þarf að huga að mörgu og skoða margt til þess að komast hjá því að það verði einhverjar villur. Við ætlum að flýta okkur hægt og gerum ráð fyrir því að afgreiða fjárlögin milli jóla og nýárs.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert