40 með Ómíkron og faraldurinn á uppleið

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórtán daga nýgengi smita innanlands hefur farið hækkandi síðastliðna daga og því ljóst að yfirstandandi bylgja faraldursins er ekki á niðurleið eins og vonir stóðu til um. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

„Ég hef áhyggjur af því að við séum kannski að sigla upp aftur,“ segir hann.

„Ég vona bara að við förum ekki meira upp á við“

146 greindust með kór­ónu­veiruna inn­an­lands í gær en þar af voru 54 í sótt­kví, að því er greint frá á covid.is. Er það fjölgun um 18 frá því deginum áður þegar 128 greindust innanlands, þar af 64 sem voru í sóttkví við greiningu.

Þórólfur segir mikið vera um hópsmit þessa dagana og þótt þau séu aðallega bundin við höfuðborgarsvæðið séu virðist þau dreifð mjög víða um landið.

„Þetta er endurtekin saga. Þetta er að blossa upp hér og þar.“

Þá segir hann erfitt að átta sig á því hvort fólk sé að gæta nógu vel að persónulegum sóttvörnum. Hann hafi t.d. fengið fregnir af því að sóttvarnir séu ekki í hávegum hafðar á skemmtunum.

„Ég veit ekki hvort það sé orsökin eða hvað það er. Alla vega heldur þetta áfram og er erfitt að stoppa. Ég vona bara að við förum ekki meira upp á við. Það væri ekki skemmtilegt.“

Ómíkron-afbrigðið „töluvert“ meira smitandi

Spurður segir Þórólfur frekari gögn um hið nýja Ómíkron-afbrigði veirunnar vera að tínast hægt og rólega inn á borð til hans. Af þeim gögnum sem liggi nú þegar fyrir sé þó nokkuð ljóst að Ómíkron-afbrigðið sé „töluvert“ meira smitandi en Delta-afbrigðið.

„Svo er spurning hvort það valdi á einhvern hátt öðruvísi, verri eða vægari sjúkdómi en Delta-afbrigðið. Það er ekki ljóst ennþá enn sem komið er. Fréttir frá útlöndum benda til þess að fólk með Ómíkron-afbrigðið sé að leggjast mjög alvarlega veikt inn á spítala en við vitum ekki hversu mikið er um það. Það á eftir að skýrast aðeins betur.“

Fram að þessu hafi um 40 manns greinst með Ómíkron-afbrigðið hér á landi en enginn þeirra veikst alvarlega ennþá, að sögn Þórólfs.

Niðurstöður um virkni bólusetninga lofi góðu

Hann segir nýjustu niður­stöður rannsókna um virkni bólu­setn­inga gagn­vart hinu nýja af­brigði þyki þó lofa góðu. Það sé „greinilegt“ að tveir skammtar af bóluefni virki ekki nógu vel gegn hinu nýja afbrigði en að verndin aukist til muna með örvunarskammtinum.

„Verndin er kannski ekki alveg eins góð og gegn Delta-afbrigðinu en er allgóð samt sem áður. Hvort örvunarskammtur dugi til að koma í veg fyrir smit eða alvarleg veikindi vitum við þó ekki alveg nákvæmlega en vitneskjan um það er hægt og rólega að týnast inn.“

Bóluefnin sem nú eru í notkun hafi verið búin til gegn S-prótíni fyrri afbrigðum kórónuveirunnar og því ekki víst að þau virki jafn vel gegn hinu nýja afbrigði.

„Þegar það verða svona margar stökkbreytingar á S-prótíni Ómíkron-afbrigðisins er ekki víst að mótefnin sem myndast af bóluefninu nái að bindast nægilega vel á þetta prótín til þess að vernda jafn vel. Það er það sem málið snýst eiginlega um.“

Inntur eftir því segist Þórólfur ekki vera búinn að skila nýju minnisblaði til Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra. Þá gat hann ekki greint frá því hvort hann hyggist leggja til að sóttvarnaraðgerðir verði hertar í ljósi stöðunnar sem nú er komin upp.

„Ég þarf aðeins að sjá betur hvað gerist áður en ég fer að skila inn nýju minnisblaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert