Mega þiggja gjöfina með sérstakri heimild

Listasafn Íslands mun varðveita hluta verkanna.
Listasafn Íslands mun varðveita hluta verkanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ríkisaðilum verður heimilt að þiggja að gjöf listaverk í eigu Íslandsbanka samkvæmt breytingu á 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2021. Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga sem var opinberað í gær.

Greint var frá því í sumar að Íslandsbanki hefði ákveðið að gefa alls 203 verk til Listasafns Íslands og annarra viðurkenndra safna. Bankinn myndi þó áfram varðveita 51 verk fyrir starfsemi sína en um þau var gerður tímabundinn vörslusamningur.

Ríkissjóður þáði listaverkin áður en að sala á 35% hlut ríkisins í Íslandsbanka hófst. Sérstaka heimild skorti þó í ljósi þess að 47. gr. laga um opinber fjármál kveður á um að ríkisaðilum sé óheimilt að þiggja gjöf sem gefin er með kvöðum eða skilyrðum sem hafa eða geta haft í för með sér viðvarandi útgjöld fyrir ríkissjóð án heimildar í fjárlögum.

Í frumvarpi til fjáraukalaga var því lagt til að sex nýir liðir myndu bætast við 6. gr. fjárlaga. Var þá meðal annars óskað eftir heimild fyrir því að ríkið gæti þegið að gjöf listaverk í eigu Íslandsbanka.

mbl.is