„Við höfum reynt að halda meðalhófi“

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra og þingmaður Framsóknarflokks.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra og þingmaður Framsóknarflokks. Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að fylgst sé vel með þróun mála hvað varðar takmarkanir hér innanlands og ekki sé enn hægt að segja til um það hvort unnt verði að létta á takmörkunum innanlands fyrir jól.

„Við fylgjumst auðvitað bara náið með stöðunni dag frá degi en þetta hefur haldist í horfinu undanfarna daga. Við erum að fá um 100 smit á dag þar af voru 40 Ómíkron tilfelli í dag þannig við bara verðum að bíða aðeins róleg eins og stendur hið minnsta,“ segir Willum spurður út í stöðu mála.

Hann segir stöðuna í nágrannalöndunum vera býsna erfiða og bendir á að verið sé að herða takmarkanir á Norðurlöndunum. „Við höfum reynt að halda meðalhófi og halda samfélaginu gangandi eins og unnt er en á sama tíma að fara varlega.“

Taka tillit til ýmissa þátta

Ljóst sé að horft væri til þess að smittölur myndu lækka til þess að hægt sé að létta á takmörkunum innanlands. Verið sé að reyna að meta stöðuna að teknu tilliti til jólahátíðarinnar, viðburðarhald og starfsemi veitingastaða á þessum vanalega annasama tíma í þeim rekstri.

Reynt sé að tryggja það að landsmenn geti „notið sín almennilega á aðventunni“. Hann ítrekar þó að allir þurfi að fara varlega.

Ráðningarferlið í réttum farveg

Staða forstjóra Landspítala var auglýst og umsóknir í starfið bárust áður en Willum tók við stjórnartaumunum í heilbrigðisráðuneytinu. Í kjölfar þess hefur hann svo boðað stofnun fagráðs yfir spítalanum auk þess sem Björn Zoëga, forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Svíþjóð, hefur verið ráðinn í ráðgjafastarf vegna málefna spítalans.

Spurður hvort forsendubrestur sé í ráðningaferlinu vegna röð atvika segir Willum svo ekki vera. Hæfnisnefnd sé með umsóknirnar á sinni könnu og málið í „þekktu ferli“. Það sé ekki komið inn á borð ráðherra hið minnsta að endurskoða stöðuna er snýr að ráðningu forstjóra spítalans.

Mál læknisins ekki komið á borð ráðherra

Inntur eftir upplýsingum um stöðu mála er varðar mál Skúla Gunnlaugssonar læknis sem er sakaður um að veita sex sjúklingum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja ótímabæra lífslokameðferð segir hann málið ekki komið á hans borð.

Um sé að ræða afar „sorglegt og viðkvæmt mál“ sem sé í því ferli sem lög og reglur kveði á um. „Það reynir á formið í svona málum og ef upp kemur að það séu einhver göt í því ferli þá dettur það eflaust inn á mitt borð.“ Hann segir málið snerta marga og „þar til bærir“ aðilar sjái um meðferð málsins eins og stendur hið minnsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert