Nýja brúin mun þrengja að siglingum

Siglunes og Brokey kenna siglingar í Nauthólsvík.
Siglunes og Brokey kenna siglingar í Nauthólsvík. mbl.is/Unnur Karen

Nýja Fossvogsbrúin mun hafa áhrif á starfsemi Siglingaklúbbsins Sigluness og Siglingafélags Reykjavíkur – Brokeyjar í Nauthólsvík. Eins mun þurfa að flytja skeljasand á Ylströndina landleiðina í framtíðinni.

Lokast út á Skerjafjörð

Nýja brúin breytir í raun litlu fyrir Siglingaklúbbinn Siglunes að sögn Óttars Hrafnkelssonar, forstöðumanns klúbbsins sem hefur aðstöðu í Nauthólsvík. Siglunes er í eigu Reykjavíkurborgar og heldur siglinganámskeið fyrir 9-12 ára börn og siglingaklúbb fyrir 10-16 ára börn og unglinga á sumrin.

„Við erum mikið á Nauthólsvíkinni og Fossvoginum framan við aðstöðu okkar. Við höfum líka siglt út á Skerjafjörðinn,“ segir Óttarr. Hann segir að minnstu seglbátarnir muni geta siglt undir brúna á fjöru en ekki þegar hærra er í sjó. Siglingasvæði Sigluness mun því ninnka.

Óttarr segir Fossvog og Nauthólsvík ákjósanleg svæði fyrir byrjendur til að æfa siglingar því þar myndast ekki stórar öldur þótt hann blási. Eftir því sem færnin eykst vilji siglararnir þó takast á við meira krefjandi aðstæður.

Brokey þarf nýtt svæði

„Við börðumst mikið á móti þessari brú en sáum fljótt að það þýddi ekki neitt,“ segir Ólafur Már Ólafsson, formaður Siglingafélags Reykjavíkur – Brokeyjar. Félagið er með aðstöðu fyrir kænusiglingar í Nauthólsvík, innan við væntanlega brú. Kænunámskeið og kænuæfingar eru þar á hverju sumri, aðallega fyrir börn og yngra fólk. Starfsemin verður óbreytt næsta sumar. „Við sáum hag okkar í að fara í viðræður við Reykjavíkurborg um að koma okkur fyrir utan við brúna, í stað þess að slást á móti þessu,“ segir Ólafur. Hann minnir á að verið sé að kynna frummatsskýrslu um landfyllingu í Nýja Skerjafirði. Mögulega geti þar skapast aðstaða fyrir siglingar á Skerjafirði.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert