Skipulögð brotastarfsemi ógnar öryggi samfélagsins

Lögreglan hefur upplýsingar um að á Íslandi starfi glæpahópar sem …
Lögreglan hefur upplýsingar um að á Íslandi starfi glæpahópar sem leggja stund á skipulagt smygl á fólki og mansal. Að gefinni forsendu um aukna áherslu á málaflokkinn er líklegt að mansalsmálum fjölgi á næstu tveimur árum. mbl.is/Eggert

Áhætta vegna skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi telst mjög mikil. Aukin notkun brotahópa á stafrænni tækni eykur álag á ýmsum sviðum löggæslunnar. Skipulögð brotastarfsemi felur í sér ógn við öryggi samfélags og einstaklinga. 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi. 

Íslenskur fíkniefnamarkaður líkist þeim evrópska

Þar segir einnig, að íslenskur fíkniefnamarkaður líkist æ meira þeim evrópska. Viðskipti hafi í auknum mæli færst á smáforrit og samfélagsmiðla og rafrænni slóð jafnharðan eytt eða samskipti dulkóðuð. Hreinleiki fíkniefna hefur vaxið en verðlag verið nokkuð stöðugt þó að greina megi nokkrar verðsveiflur innan ákveðinna flokka. Afskipti lögreglu af skipulagðri brotastarfsemi í formi frumkvæðislöggæslu á landsvísu eru takmörkuð, að því er segir í skýrslunni.

Ný íslensk rannsókn á frárennslisvatni á höfuðborgarsvæðinu að fíkniefnaneysla í …
Ný íslensk rannsókn á frárennslisvatni á höfuðborgarsvæðinu að fíkniefnaneysla í Reykjavík er umfangsmikil og í líkingu við það sem þekkist í öðrum borgum í Evrópu. mbl.is/Hari

Þá kemur fram, að aðgengi íslenskra brotahópa að erlendum mörkuðum sé auðveldara m.a. vegna þess að íslenskir brotamenn hafi komið sér fyrir erlendis og myndað tengsl á helstu fíkniefnamörkuðum t.d. í Hollandi, Spáni og í Suður-Ameríku. Aukin umsvif fjölþjóðlegra brotahópa og skipulagðra brotahópa frá Suðaustur-Evrópu á Íslandi séu merkjanleg.

Umfangsmikil fíkniefnaneysla í Reykjavík

Ný íslensk rannsókn á frárennslisvatni á höfuðborgarsvæðinu staðfestir umfangsmikla fíkniefnaneyslu í Reykjavík. Samkvæmt henni er fíkniefnaneysla hér mjög í líkingu við fíkniefnaneyslu í borgum Norðurlanda og Evrópu þar sem sambærilegar rannsóknir hafa verið unnar og vísbendingar um jafnvel meiri neyslu sumra fíkniefna t.d. amfetamíns hér á landi en á sumum Norðurlanda að sögn ríkislögreglustjóra. 

Þó margt hafi áunnist í baráttu gegn tölvu- og netglæpum …
Þó margt hafi áunnist í baráttu gegn tölvu- og netglæpum þá er það mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra (GRD) að netvarnir, vöktun og viðbúnaður gegn netglæpum séu ekki nægjanlegar Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glæpahópar starfandi á Íslandi sem tengist ákveðnum þjóðarbrotum

Einnig kemur fram, að lögregla hafi upplýsingar um að hingað til lands sé flutt fólk er sæti misneytingu og jafnvel mansali. Á Íslandi séu starfandi glæpahópar sem séu tengdir ákveðnum þjóðarbrotum frá Mið-Austurlöndum og Suðaustur-Evrópu og stundi skipulagt smygl á fólki og mansal. Talið sé afar líklegt að með breytingum og útvíkkun á 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að þeirri forsendu gefinni að lögregla leggi aukna áherslu á málaflokkinn muni mansalsmálum fjölga á næstu tveimur árum.

Bent er á, að aðstoðarmenn (e. facilitators) skipulagðrar brotastarfsemi varðandi smygl á fólki og mansal séu þeir sem með markvissum hætti veiti aðstoð vegna komu, dvalar eða starfsemi fórnarlamba mansals á Íslandi. Slík aðstoð geti m.a. verið fólgin í að útvega dvalarstað fyrir fórnarlömb mansals, velja staði þar sem misneyting fari fram, vera tengiliður við innlenda glæpamenn/hópa og aðstoða við peningaþvætti eða við flutning á þýfi úr landi eða koma því í verð á annan veg. Þetta eigi m.a. við um þá sem tilheyri þjóðarbrotum frá löndum með mörgum virkum glæpamönnum á Íslandi og þá einstaklinga innan þess hóps sem hafa aðgang að eða tengjast fyrirtækjum í lögmætum rekstri.

Vísbendingar eru um umfangsmikla brotastarfsemi hópa frá Suðaustur-Evrópu m.a. á …
Vísbendingar eru um umfangsmikla brotastarfsemi hópa frá Suðaustur-Evrópu m.a. á smáforritum þar sem áhersla er m.a. lögð á svæðisbundna sölu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ógn vegna netárása á fjármálafyrirtæki á Íslandi fer vaxandi

„Nærri öruggt er talið að ógn vegna netárása á fjármálafyrirtæki á Íslandi fari vaxandi. Skráðum tölvu- og netbrotum fjölgar ört samkvæmt upplýsingakerfi lögreglu. Tilkynnt atvik til CERT-ÍS hafa rúmlega tvöfaldast frá árinu 2019. Net- og tölvuþrjótar ná að svíkja út umtalsverðar fjárhæðir af almennum borgurum og fyrirtækjum á Íslandi í hverjum mánuði t.d. með svokölluðum fjárfestingasvikum sem fjallað er nánar um í kafla um tölvu- og netglæpi. Þó margt hafi áunnist í baráttu gegn tölvu- og netglæpum þá er það mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra (GRD) að netvarnir, vöktun og viðbúnaður gegn netglæpum séu ekki nægjanlegar Íslandi.

Rýmka þarf ákvæði Laga um landshöfuðlén nr. 54/2021 nánar tiltekið 11. gr. 1. mgr. b. lið í samræmi við 2. mgr. 83. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 þar sem kveðið er á um undanþágur vegna alvarleika brota. Huga þarf að meiri og mark-vissari upplýsingasöfnun varðandi ógnir gegn upplýsingainnviðum Íslands, m.a. með að því auka greiningargetu varðandi samskipti tölvuþrjóta, yfirvofandi árásir á tölvukerfi og viðkvæm gögn í upplýsingalekum. Með því móti má hindra tjón bæði almennings og ríkisins,“ segir í skýrslunni. 

„Talið er nærri öruggt að umfangsmikið peningaþvætti fari fram á …
„Talið er nærri öruggt að umfangsmikið peningaþvætti fari fram á Íslandi. Peningaþvætti er alvarlegur vandi í íslensku samfélagi.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umfangsmikið peningaþvætti fari fram á Íslandi

Þá telur greiningardeild ríkislögreglustjóra að bæta megi menntun og fræðslu fyrir lögreglumenn varðandi tölvu- og netglæpi svo og að bæta aðgengi lögreglu að sérfræðiþekkingu og samvinnu við fagaðila í málum sem varða þennan flokk afbrota. Bæta og samræma megi skráningu net- og tölvubrota í upplýsingakerfi lögreglu.

„Talið er nærri öruggt að umfangsmikið peningaþvætti fari fram á Íslandi. Peningaþvætti er alvarlegur vandi í íslensku samfélagi líkt og mikil fjölgun slíkra mála, í kjölfar bætts regluverks og aukinnar áherslu lögreglu á málaflokkinn, ber með sér. Ekki liggja fyrir upplýsingar um heildarupphæð haldlagðra/kyrrsettra fjármuna í tengslum við rannsóknir mála á peningaþvætti. Það er mat greiningardeildar ríkis lögreglustjóra að bæta þurfi skráningar lögreglu er varðar kyrrsetningu og haldlagningu fjármuna í peningaþvættismálum.Frá skýrslu ársins 2019 hafa stjórnvöld stuðlað að því að efla getu löggæslu í baráttu gegn skipulagðri brotastarfsemi m.a. með ýmsum áhættuminnkandi stjórnsýslu- og lagabreytingum,“ segir ennfremur í skýrslu ríkislögreglustjóra. 

mbl.is