Bók Ásgeirs rokselst

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gaf út bókina Eyjan hans Ingólfs, sem …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gaf út bókina Eyjan hans Ingólfs, sem hefur verið á milli tannanna á fólki. Bókin rokselst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bók Ásgeirs Jónssonar, Eyjan hans Ingólfs, er komin í 5. sæti á metsölulista Eymundssonar í flokki handbóka, fræðibóka og ævisagna. Vinsældir bókarinnar koma þægilega á óvart að sögn Jónasar Sigurgeirssonar, framkvæmdastjóra Bókafélagsins, sem gefur út bók Ásgeirs.

Hann veltir því upp á Facebook í dag hvort illt umtal sé betra en ekkert umtal eins og sagt sé – svarið virðist vera já, því bókin rokselst.

Selst betur en fyrri bók Ásgeirs

Bókin selst mun betur en fyrri bók Ásgeirs, Uppreisn Jóns Arasonar, sem þó gekk mjög vel að sögn Jónasar.

Nú er svo komið að síðustu eintökunum af lagernum verður ekið í verslanir í fyrramálið en von er á nýrri prentun af Eyjan hans Ingólfs eftir helgina.

Eyjan hans Ingólfs hefur verið nokkuð til umræðu eftir að Ásgeir var sakaður um ritstuld í bókinni. Jónas gefur lítið fyrir þær ásakanir og hafnar Ásgeir þeim alfarið.

mbl.is