Menn eiga helst að svitna aðeins við að borða skötu

Fúsi með skötuna góðu.
Fúsi með skötuna góðu. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er slatti farinn út til ýmissa klúbba sem verða með skötuveislur en ég er með 4-500 kíló hérna í búðinni og fæ meira á mánudag. Það er nóg til og ekki veitir af,“ segir Sigfús Sigurðsson, Fúsi fisksali í Skipholti, í samtali við Morgunblaðið.

Margir hugsa sér gott til glóðarinnar í næstu viku enda sjálf jólahátíðin fram undan og kannski ekki síður hinn heilagi forleikur, sjálf skötuveislan. Fúsi fisksali segir að margir bjóði upp á saltaða skötu eða dauft kæsta. Sjálfur vill hann hafa skötuna þykka og mikið kæsta. „Þetta á að vera alvörukæsing. Ef menn eru að þessu á annað borð þá á að vera bragð af. Menn eiga helst að svitna aðeins við að borða skötuna! Einhver sagði við mig að skatan væri best þegar hún er svo kæst að það flagnar innan af gómnum við að borða hana svo það verður líka skötubragð af jólamatnum,“ segir hann og hlær hrossahlátri.

Úlfar Finnbjörnsson matreiðslumeistari verður með skötuveislu á Grand hóteli á Þorláksmessu. Þar verður á boðstólum kæst vestfirsk skata, smáskata, saltfiskur, reykt og nætursöltuð ýsa, skötustappa og hnoðmör svo fátt eitt sé nefnt. Úlfar segir að uppselt sé í veisluna og mikil eftirvænting hjá gestum. „Þarna eru sömu hóparnir og hittast ár eftir ár. Það var farið að hringja í okkur í ágúst til að spyrja hvort það yrði ekki skata í ár. Við gætum auðvitað að öllum takmörkunum og allir þurfa að sanna að þeir séu hreinir af öllum veirum enda ætlum við ekki að missa af þessu fjöri.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert