Rannsaka virkjun sjávarfalla í Gilsfirði

Horft til suðurs þar sem vegfylling þverar Gilsfjörð. Dýpið er …
Horft til suðurs þar sem vegfylling þverar Gilsfjörð. Dýpið er mest nokkru sunnan við brúna og þar er hugmyndin að setja niður túrbínur. mbl.is/Sigurður Bogi

Orkustofnun hefur gefið út tvö rannsóknarleyfi vegna mögulegrar virkjunar sjávarfalla hér við land. Annað sneri að virkjun sjávarfalla í Hvammsfirði á Breiðafirði og er það nú útrunnið.

Hitt rannsóknarleyfið snýr að virkjun sjávarfalla undir þverun Gilsfjarðar í Dalabyggð og Reykhólasveit. Það var gefið út 26. febrúar 2021 og gildir til 25. febrúar 2026. Handhafi leyfisins er JGKHO ehf. vegna áætlana um allt að 30 MW sjávarfallavirkjun. Samkvæmt leyfisbréfinu skulu rannsóknir hefjast innan eins árs frá útgáfu leyfisins og vera lokið áður en leyfið fellur úr gildi.

Í umsókn um rannsóknarleyfið kemur fram að rannsaka eigi hagkvæmni þess að nýta rennsli í og úr Gilsfirði innan Vestfjarðavegar sem nú fellur undir brú á veginum. Virkjun yrði mögulega staðsett við núverandi vegstæði sem hefur þverað fjörðinn frá því skömmu fyrir síðustu aldamót. Einnig á að kanna heppilega staðsetningu fyrir mögulega virkjun og önnur mannvirki og þörf fyrir flutningsvirki.

Gert er ráð fyrir að rannsóknunum verði skipt á tvö tímabil sem hvort um sig taki tvö og hálft ár. Í fyrri hluta fari fram rennslismælingar svo hægt sé að reikna út mögulegt rennsli um væntanlega virkjunarhverfla. Einnig verði myndun lagnaðaríss rannsökuð en hún gæti haft áhrif á rekstur virkjunar og eins á snjóalögum og öðrum veðurfarslegum aðstæðum. Auk þess verði gerð forkönnun á áætluðum umhverfisáhrifum, þar með talið varðandi hugsanleg áhrif á fallaskipti. Sérstök áhersla verður lögð á að meta sem fyrst fyrirliggjandi gögn um seltumælingar í lóninu innan þverunar fjarðarins.

Lítil sjónræn áhrif

Á síðara tímbilinu er ætlunin að halda áfram rannsóknum á sömu þáttum og rannsakaðir voru á fyrra tímabilinu, sé þess talin þörf. Auk þess verði gerðar rannsóknir á berglögum ásamt kortagerð.

Talið er að sjónræn áhrif vegna stífluloka undir brúnni verði væntanlega mjög lítil, enda um lítið mannvirki að ræða. Verði virkjað þykir líklegt að sjávarstaða verði með líkum hætti og hún var fyrir þverun fjarðarins með tilheyrandi endurheimt leira, hækkuðu seltustigi í lóninu og aukinni blöndun varma inn í lónið frá hafi, að minnsta kosti að vetri til. Ýldulykt af ísöltu vatni lónsins og aukning á lagnaðarís ættu að ganga til baka.

Sjónræn áhrif af flutningslínum frá virkjuninni til spennuvirkis Landsnets í Geiradal velta á því hvort jarðstrengur eða loftlína verða valin til að flytja rafmagnið þessa 7-8 km leið.

Í minnisblaði sem fylgir umsókninni kemur m.a. fram að Gilsfjörður innan þverunar fjarðarins sé nálægt 26 km2 miðað við hæsta stórstraumsflatarmál. Gert er ráð fyrir að flatarmál fjarðarins á stórstraumsfjöru sé 18 km2. Þannig má ætla að heildarrúmmál flóðtanks Gilsfjarðar sé 80 milljónir rúmmetra. Ætla má að orkuframleiðsla gæti numið mest 180-220 MWh á sólarhring. Uppsett afl virkjunarinnar gæti mest orðið 25-30 MW. Þá er sagt í minnisblaðinu að vera megi að minni virkjun sé hagkvæmari, jafnvel undir 10 MW að uppsettu afli.

Ekki einfalt mál að virkja

„Eðlisfræðin er ekki með okkur en við erum að leita leiða,“ segir Jón Guðni Kristinsson, stjórnarformaður JGKHO ehf. sem er með rannsóknarleyfi í Gilsfirði. Hann segir að rannsóknir séu byrjaðar.
Jón Guðni Kristinsson.
Jón Guðni Kristinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fjörðurinn er mjög stór en hæðarmunur lítill. Við höfum ekki gefið upp alla von, en líkurnar á að þetta verði hagkvæmt eru ekki góðar,“ segir Jón. Hugmyndin er að gera rás í gegnum vegfyllinguna þar sem fjörðurinn er dýpstur. Þar þurfa túrbínurnar að vera. Rennslið gæti orðið eins og þrjár Ölfusár. Með virkjuninni færðist umhverfið í lóninu innan vegfyllingarinnar nær fyrra horfi. Sjávarborð mundi lækka um um það bil einn metra í lóninu og víðfeðmar leirurnar fara aftur að koma upp á fjöru.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert