Tekist á um bólusetningar og frelsi fólks

Tómas Guðbjartsson læknir og Arnar Þór Jónsson lögmaður eru ósammála …
Tómas Guðbjartsson læknir og Arnar Þór Jónsson lögmaður eru ósammála um margt er varðar faraldurinn og viðbrögð heimsins við honum. Ljósmynd/Samsett

Hart var tekist á um bólusetningar og frelsi fólks í heimsfaraldi í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þar sem Tómas Guðbjartsson læknir og Arnar Þór Jónsson lögmaður mættu og ræddu ábyrgð í faraldrinum.

Tómas byrjaði þáttinn á að segjast vera mótfallinn bólusetningarskyldu en hann, sem læknir, mælti með bólusetningum barna miðað við þau gögn sem væru uppi á borðum.

„Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna er sennilega það öflugasta í heimi og evrópska lyfjastofnunin er mjög sterk líka. Það væri aldrei farið að mæla með þessum bólusetningum ef þau væru hættuleg heilsu barna.“

Um væri að ræða veiru sem er álíka smitandi og mislingar og bóluefni gegn mislingum hefði verið brautryðjandi á sínum tíma og notað af nær öllum foreldrum allar götur síðan.

Arnar Þór var þó skeptískari á bóluefnin og sagði þau enn í rannsóknarfasa sem hafi átt að ljúka sumarið 2024 en væri búið að fresta fram á vormánuði 2026.

„Nú er allt í einu tilkynnt að tilraunafasanum ljúki ekki fyrr en 5. maí 2026.“

Skaut á læknastéttina

Arnar skaut föstum skotum á læknastéttina og sagði undarlegt að þau væru öll á sama máli hvað varðaði bóluefnin.

„Það er eins og það skorti alla fræðilega umræðu innan læknastéttarinnar. [...] Ríkið á að vera þjónn okkar en ekki yfirdrottnari. Þetta er grundvallaratriði. Þá er leiðarstefið og hefur verið í mörg þúsund ár: Almannaheill. Jú, þetta eru erfiðir tímar sem við erum að lifa en þetta eru ekki einu erfiðu tímarnir sem við erum að lifa. Við þurfum að komast í gegn um þetta án þess að fara á taugum. Ef við ætlum að stýra skipinu eftir áttavita almannaheilla þá segir það sig sjálft að við lokum ekki fyrirtækjum, sviptum fólk ekki vinnu, lokum það ekki inni eins og við höfum verið að gera,“ sagði Arnar.

Handhafar ríkisvalds „í hálsmálinu“ á okkur

Kristján Kristjánsson þáttastjórnandi skarst í leikinn og spurði „en hvar liggja mörkin?“

„Mörkin eru alltaf þau sömu. Frelsi einstaklingsins takmarkast af þeirri ábyrgð sem hann ber,“ sagði Arnar og bætti við að tveir kostir væru í stöðunni: Að treysta einstaklingunum eða vantreysta borgurunum og leggja valdið í hendur ríkisins.

Arnar hélt áfram og nefndi bók eftir Klaus Schwab að nafni Covid-19: The Great Reset þar sem talað er um hvernig heimurinn muni breytast í kjölfar faraldursins. „Veistu hvert svarið er, af því þú nefnir frelsi og ábyrgð? Svarið er einfalt, það heitir á ensku „big government“. Það á að veita handhöfum ríkisvalds í sífellt meira mæli, vald til þess að koma ofan í hálsmálið á okkur og segja okkur hvernig við eigum að haga okkur.“

Fær kjánahroll og finnst þetta óábyrgt

Tómas svaraði um hæl:

„Ég er bara alls ekki að kaupa þessa pólitísku keilu sem Arnar er að reyna að slá hérna. Þetta bara á ekki við. Við erum í almannavarnaástandi, við erum að tala um það að heilbrigðiskerfið okkar leggist á hlið,“ sagði hann og benti á heilu hóparnir af fólki sem vinnur saman séu að smitast og nefndi dæmi um að þingmenn Viðreisnar væru allir sýktir.

„Ef þessi sýking myndi koma upp á hjartadeild, þar sem við erum að taka á móti stærsta sjúkdómahópi landsins, stærsta dánarorsök á Íslandi. Hvað gerist ef að allir læknarnir á þeirri deild veikjast og svo framvegis? Þetta segir sig bara sjálft.“

„Ég fæ kjánahroll þegar ég hlusta á Arnar tala um þetta og mér finnst þetta óábyrgt og mér finnst þetta hættulegt.“

Tómas vísaði í hugsanaskekkjuna „confirmation bias“, það þegar fólk trúir aðeins þeim upplýsingum sem samsvara þeirra eigin skoðunum.

„Fólk er að lesa alls konar á netinu, eitthvað sem að höfðar til þeirra og það festist í þessu,“ sagði Tómas og sagði þetta svipa til forsetakosninganna í Bandaríkjunum í fyrra þegar Donald Trump sakaði mótherja sinn og sigurvegara kosninganna, Joe Biden, um kosningasvindl sem leiddi loks til árásarinnar á þinghúsið.

„Það er hamast á því sama, reynt að búa til samsæriskenningar sem eiga sér ekki stoð.“

Hægt er að hlusta á þáttinn hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina