CNN fjallar um að íslenska réttarkerfið bregðist konum

Umfjöllun CNN er mjög ítarleg.
Umfjöllun CNN er mjög ítarleg. mbl.is

CNN birti í dag mjög ítarlega umfjöllun um kynferðis- og heimilisofbeldismál á Íslandi. Þar kemur fram á blaði líti Ísland út fyrir að vera frábær staður fyrir konur og sé mjög ofarlega þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Bent er á að kynjahlutföllin á Alþingi séu mjög jöfn, sem og kynjahlutföllin í stjórnum íslenskra fyrirtækja. 

Það segi hins vegar ekki alla söguna, því þrátt fyrir að jafnrétti virðist vera í hávegum haft virðist konur sem orðið hafa fyrir kynferðis- eða heimilisofbeldi oft eiga erfitt með að leita réttar síns. Mál þeirra séu gjarnan látin niður falla. Ísland sé því kannski ekki sú femínistaparadís sem það líti út fyrir að vera í fyrstu.

Ríkið viðurkennir mistök í máli Maríu

Í umfjöllun CNN er sérstaklega fjallað um  mál Maríu Árnadóttur, en hún kærði fyrrverandi kærasta sinn og sambýlismann fyrir heimilisofbeldi og hótanir, en heimilisofbeldismálið var látið niður falla vegna mistaka við meðferð málsins hjá lögreglu. Maríu var upphaflega tjáð að ástæða niðurfellingarinnar væri sú að ekki væri talið að málið myndi leiða til sakfellingar en komst síðar að því að lögreglu hafði láðst að yfirheyra meintan brotamann og því hefði málið fyrnst í höndum lögreglu.

María er ein níu kvenna sem hefur höfðað mál á hendur íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu vegna óréttlátrar málsmeðferðar innan íslenska dómskerfisins. Allar kærðu konurnar meinta ofbeldismenn fyrir kynferðis- eða heimilisofbeldi en mál þeirra voru látin niður falla.

Fjalar Sigurðarson, upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins, sagði í yfirlýsingu til CNN vegna umfjöllunarinnar að íslenska ríkið viðurkenndi að hafa gert mistök við meðferð eins málsins, sem hefði leitt til niðurfellingar þess. En þar er um að ræða mál Maríu.

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að þrátt fyrir að mistök hafi verið gerð, þá hafi þau ekki verið af þeirri stærðargráðu að þau hafi verið brot á Mannréttindasáttmála Evrópu.

Farið yfir nýju #MeeToo bylgjuna á Íslandi

Í umfjöllun CNN eru einnig viðtal við Tönju Ísfjörð sem situr í stjórn Öfga og rakin sagan af því hvernig samtökin birtu sögur tuga kvenna sem sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni og ofbeldi af hendi ákveðins listamanns, sem varð svo til þess að hann missti af verkefnum sem hann hafði verið ráðinn í. Þá er stuttlega farið yfir það hvernig hin nýja #MeeToo bylgja náði inn í knattspyrnuhreyfinguna á Íslandi og að nokkrir íslenskir knattspyrnumenn hefðu verið sakaðir um ofbeldi. Þetta hefði orðið til þess að Guðni Bergsson, formaður KSÍ hefði sagt af sér.

Þá er rætt við Steinunni Gyðu Guðjónsdóttur, talskonu Stígamóta, um að þrátt fyrir að kynferðisglæpir séu litnir mjög alvarlegum augum í íslenska réttarkerfinu þá sé ekki veittur nægur mannafli til að rannsaka slík mál. Gagnsæi sé heldur ekki nógu mikið, en fórnarlömb hafi til að mynda ekki aðgang að málsgögnum og geti því ekki fylgst með framvindu málsins.

Að lokum er rætt við aðstandendur rannsóknarinnar Áfallasögu kvenna, Unni Önnu Valdimarsdóttur og Örnu Hauksdóttur, um sláandi niðurstöður sem sýndu fram á að um 40% íslenskra kvenna telji sig hafa orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi í nánu sambandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert