Ögmundur mótmælti fyrir utan breska sendiráðið

Ögmundur Jónasson í baráttuhug við breska sendiráðið.
Ögmundur Jónasson í baráttuhug við breska sendiráðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi dómsmálaráðherra úr röðum Vinstri grænna, mótmælti fyrir utan sendiráð Bretlands á hádegi í dag.

Hann afhenti sendiherra bréf þar sem hann er hvattur til þess að beita sér fyrir því að Bretar láti Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, lausan úr haldi og láti af umleitunum um framsal hans til Bandaríkjanna.

Assange er í haldi í London, þar sem hann laut í lægra haldi nýverið fyrir áfrýjunardómstóli um mögulegt framsal hans til Bandaríkjanna. Þar á hann yfir höfði sér um 170 ára langan fangelsisdóm fyrir meintar njósnir. 

Assange birti á WikiLeaks í upphafi áratugarins myndskeið og skjöl sem talin eru sanna stríðsglæpi Bandaríkjamanna í stríðinu við Írak og Afganistan. 

Ögmundur afhendir starfsmanni sendiráðsins bréf sitt. Mótmælin eru friðsamleg, eins …
Ögmundur afhendir starfsmanni sendiráðsins bréf sitt. Mótmælin eru friðsamleg, eins og vinaleg bros á vörum beggja sýnir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Assange eigi að verða öðrum víti til varnaðar

„Mér finnst hún svívirðileg,“ segir Ögmundur í samtali við mbl.is um meðferðina á Assange. 

„Og ég tek undir með Nils Melser, skýrslugerðarmanni Sameinuðu þjóðanna um pyndingar, sem hefur lýst þessu sem alvarlegri aðför að hálfu Bandaríkjanna og hefur hvatt til þess að hann verði látinn laus,“ bætir Ögmundur við. 

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa sagt loforð Bandaríkjamanna um að farið verði blíðum höndum um Assange vera loftið eitt. Á þetta benti Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, nýverið í samtali við mbl.is og sagði að leyniþjónusta Bandaríkjanna (CIA), stofnun sem ætlaði sér að ráða Assange af dögum, geti hæglega farið fram á vistun hans í öryggisfangelsi.

Ögmundur segir að tilgangurinn með aðförinni að Assange sé að skapa ótta meðal þeirra sem hyggja á samskonar uppljóstranir og hann. Þannig geti meðferðin á honum orðið fordæmi fyrir meðhöndlun uppljóstrara framtíðarinnar. 

„Tilgangurinn er að ofsóknir á hendur honum og fangelsun eigi að verða öðrum víti til varnaðar. Þess vegna kemur þetta mál okkur öllum við. Þess vegna eigum við öll að rísa upp til mótmæla,“ segir Ögmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert