20 milljónir til endurbyggingar Miðgarðakirkju

Svona er gert ráð fyrir því að nýja kirkjan líti …
Svona er gert ráð fyrir því að nýja kirkjan líti út. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita 20 milljónir króna af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu til endurbyggingar Miðgarðakirkju í Grímsey. Kirkjan sem brann til grunna 22. september sl. var elsta bygging eyjarinnar en hún var byggð úr rekavið árið 1867. Gagngerar endurbætur fóru fram á kirkjunni árið 1956 og var hún þá endurvígð. Kirkjan var svo friðuð árið 1990. 

Áætlaður heildarkostnaður um 100 milljónir

Áætlaður heildarkostnaður við byggingu nýrrar kirkju er um 100 milljónir króna en tryggingabætur nema um 30 milljónum króna. Þá hefur sóknarnefnd Miðgarðakirkju staðið fyrir fjáröflun þar sem þegar hafa safnast um 12 milljónir króna. Vonir standa til þess að framkvæmdir geti hafist næsta sumar og að ný kirkja verði tilbúin að utan í september þegar ár verður liðið frá brunanum. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Kirkjan þjónaði mikilvægu hlutverki

Í brunanum eyðilögðust líka munir sem ekki er hægt að meta til fjár og verða aldrei bættir, eins og altaristafla sem gerð var af Arngrími Gíslasyni á Völlum í Svarfaðardal árið 1878 og var eftirmynd af verki eftir Leonardo da Vinci af síðustu kvöldmáltíðinni. Einnig útskornir munir, eins og skírnarfontur og útidyrahurð kirkjunnar

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að Miðgarðakirkja hafi þjónað mikilvægu samfélagslegu hlutverki meðal Grímseyinga og að íbúar séu staðráðnir í að reisa nýja kirkju sem geti nýst bæði við helgihald og til menningarviðburða.

mbl.is