Óli Björn einn í sveitinni yfir hátíðarnar „ef guð lofar“

Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, er í einangrun í sveitinni.
Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, er í einangrun í sveitinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Já ég er einn úti í sveit og vona að það haldist þannig að ég hafi ekki smitað mína fjölskyldu. Það er fjölskyldan mín sem er undir í þessu en ekki aðrir,“ segir Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is um aðstæður sínar í einangrun, eftir að hann greindist með Covid-19 í gær. 

„Það er merkilegt að segja þetta með þessum hætti; ef guð lofar, þá verð ég einn hérna yfir hátíðarnar. Það þýðir þá að fjölskyldan hafi sloppið,“ segir Óli Björn sem dvelur í sveitinni sinni við Meðalfell í Kjós. 

Óli Björn kveðst ekki finna mikið fyrir veikindum og ekki vita hvaða afbrigði kórónuveirunnar hann hafi greinst með. „Ég vona hið besta, ég er þríbólusettur og vona því að þetta verði mér léttbærara fyrir vikið,“ segir Óli Björn.

Grípur jafnvel í handrit

Hann mun þó ekki sitja auðum höndum í einangruninni og hefur verið á stöðugum fjar- og símafundum frá því í gær þegar einangrun hans hófst. Óli Björn segir að hann eigi nokkurn lestur fyrir stafni tengdan vinnunni, haldi hann sæmilegri heilsu. 

„Kannski næ ég að grípa í handrit sem ég hef verið að leika mér með,“ segir Óli Björn. Annað handritið mun vera af bók um hugmyndafræði en hitt vera af frásögn af för föður Óla Björns til Kanada, ásamt æskufélaga sínum, árið 1953, „þegar þeir freistuðu gæfunnar og töldu að grasið væri grænna í Kanada“.  

Óli Björn segir þá sem betur fer hafa áttað sig á því að grasið væri alls ekki grænna hinum megin við Atlantshafið.

Muni reyna að þingið

Þá segist hann vona að allt gangi vel á Alþingi þrátt fyrir stöðuna „Það auðvitað skiptir verulega miklu máli. Það eru mál sem verður að afgreiða og undan því verður ekki vikist. Það mun reyna á þingmenn og ekki síst sem nú koma nýir til verka að afgreiða málin í sæmilegri sátt og samstöðu, þó að jafnvel kunni að vera ágreiningur í einstaka málum.“

mbl.is