Lærði hvað dúx þýddi þegar hún dúxaði

Kládía M. Kristjándóttir
Kládía M. Kristjándóttir

Kládía M. Kristjándóttir útskrifaðist úr Flensborg 18. desember með meðaleinkunnina 8,37 og var þar með dúx skólans. Kládía er stúdent af opinni braut og segir að námið hafi þyngst vegna faraldursins.

Spurð hvort það hafi verið markmið hjá henni að dúxa svaraði Kládía því neitandi og viðurkenndi að hún vissi varla hvað orðið dúx þýddi fyrir 18. desember.

„Ég var ekki að búast við því, ég lærði bara hvað dúx var á deginum sem ég varð dúx. Einhver hluti af mér kannski vissi það; ég hef alltaf verið góður nemandi en síðustu ár hefur þetta verið erfiðara vegna Covid.“

Mikilvægt að hlusta í tíma 

Kládía segir að sér finnist best að læra með því að hlusta á kennarana í tímum.

„Það var ekki mikið um fjarkennslu, aðallega var okkur bara sagt hvað við ættum að lesa heima og það er miklu erfiðara“ og bætir við „Ég var alls ekki að búast við þessu og var næstum því búin að gefast upp meira að segja.“

„Mér gekk mjög vel fyrstu árin í Flensborg en eftir Covid þá breyttist það og mér leið líka verr.“

Stefnir á nám erlendis

Að sögn Kládíu er mikilvægt að finna eitthvað í náminu sem manni sjálfum finnst áhugavert því erfitt er að muna eitthvað sem maður hefur ekki áhuga á.

Hún segist ekki hafa verið nógu dugleg að læra heima en stóð sig samt með prýði. Eftir skólann langar hana að vinna á snyrtistofu og stefnir hún síðan á nám erlendis.

„Ég myndi vilja vinna á snyrtistofu, eitthvað sem tengist fegurð eða húð umhirðu. Af því ég sjálf hef verið í vandræðum með húðina mína í gegnum líf mitt og vil hjálpa öðru fólki. Ég held að það væri áhugavert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert