Um 300 greindust smitaðir af Covid í gær

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands.
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Um 300 greindust smitaðir af Covid-19 í gær. Frá þessu greindi Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, í færslu á Facebook í dag.

Í færslunni segir hann tvöföldunartíma Ómíkron-afbrigðisins nær því að vera tveir til þrír dagar sem sé það mesta sem nokkurn tímann hafi sést í faraldrinum fram að þessu.

Þá segir hann faraldurinn vera í afar miklum vexti og að ekki sé þorandi að spá því hvenær viðsnúningi verði náð.

„Til þess þarf að sjá framganginn í þessum nýja COVID veruleika í 2-3 vikur,“ segir hann í færslunni.

Tólf sjúklingar liggja nú á Landspítalanum vegna Covid-19 og er meðalaldur þeirra 58 ár. Þar af eru tveir á gjörgæslu og er annar þeirra í öndunarvél.

2.035 sjúk­ling­ar eru á Covid-göngu­deild spít­al­ans, þar af 718 börn, að því er greint frá í tilkynningu frá Landspítalanum.

Frá upp­hafi fjórðu bylgju í sum­ar hafa 235 verið lagðir inn vegna Covid-19 á spít­al­ann.

Will­um Þór Þórs­son heil­brigðisráðherra mun kynna þær sótt­varna­tak­mark­an­ir sem í gildi verða yfir jól og ára­mót að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum í dag. Fundinum lýkur að öllum líkindum skömmu fyrir hádegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert