Dúx FMOS stefnir á að læra hestafræði

Margrét Kristjánsdóttir Wiium er dúx FMOS með meðaleinkunnina 8,48.
Margrét Kristjánsdóttir Wiium er dúx FMOS með meðaleinkunnina 8,48. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Kristjánsdóttir Wiium útskrifaðist úr Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ 18. desember síðastliðinn með meðaleinkunnina 8,48 og var þar með dúx skólans að þessu sinni. Margrét er stúdent af hestakjörsviði á opinni stúdentsbraut. Hún segir það að vinna skólaverkefnin og skila þeim á réttum tíma vera lykilinn að velgengni í námi.

Segir símatskerfi skólans hafa hentað sér vel

Spurð segist Margrét alls ekki hafa haft það að markmiði að dúxa. Hún hafi að eigin sögn bara ætlað að ná að útskrifast.

„Auðvitað reyndi ég alltaf að standa mig vel. Ég skilaði öllum verkefnum og svona, eða reyndi það allavega, en það var ekki endilega til þess að verða dúx,“ segir hún.

Hún segir álagið í náminu hafa verið mismikið eftir því hve mörgum áföngum hún var skráð í, innt eftir því. Á síðustu önninni hafi hún þó verið í fáum áföngum og því dreifðist álagið vel.

„Ég þurfti því ekkert alltaf að vera læra þarna undir lokin og gat bæði unnið og æft dans tvisvar í viku meðfram náminu. Álagið jókst svo aðeins í lokaverkefnatíðinni.“

Í FMOS er símatskerfi sem þýðir að vinna þurfi skólaverkefnin jafn óðum til að ná góðum árangri í náminu, að sögn Margrétar.

„Það kerfi hentar mér mjög vel því ef þú bara mætir og skilar verkefnunum þá ertu að fara fá góðar einkunnir. Það er það sem ég gerði. Ég vann í tíma og skilaði verkefnunum.“

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ.
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ. Ljósmynd/FMOS

Lærði í allt að fjórar klukkustundir á dag

Hversu lengi lærðiru á dag?

„Þegar það var mest að gera þá lærði ég í kannski fjóra klukkutíma á dag. Það var í lokaverkefnatíðinni. Annars náði ég líka að vinna rosa mikið uppi í skóla svo ég þurfti lítið að læra utan skólans.“

Margrét segir skemmtilegustu fögin hafa verið spænska, myndlist og hestafögin en hún hlaut m.a. viðurkenningu fyrir góðan árangur í myndlist.

„Ég fékk bæði bókina Íslandsklukku eftir Halldór Laxness, áritaða af bæjarstjóra Mosfellsbæjar fyrir góðan námsárangur heilt yfir og svo bókina The Book of Art fyrir góðan árangur í myndlist.“

Hvernig gekk að sinna félagslífinu?

„Félagslífið er búið að vera mjög spes í faraldrinum en á þessari önn gekk bara vel að sinna því. Ég náði að hitta vini mína eða spila tölvuleiki með þeim. Á síðustu vorönn var ég þó í mjög mörgum áfangum og hitti vini mína þar af leiðandi mun minna.“

Féll næstum þegar námið var fært í fjarform

Samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins hafa haft mikil áhrif á skólahald um land allt og er FMOS þar ekki undanskilinn en að sögn Margrétar var námið í skólanum fært á fjarform í tæplega tvær annir.

„Þegar það byrjaði þá var ein önn sem ég rétt náði því fjarnám virkar bara ekki fyrir mig. Ég náði samt öllu sem var frábært en það munaði mjög litlu á að ég félli í sumum áföngum.“

Spurð segist Margrét ætla að hvíla námsbækurnar og vinna í fataverslun og þjálfa hross í Víðidalnum fram að næsta hausti en þá stefnir hún á að læra hestafræði við Háskólann á Hólum.

„Ef það gengur ekki upp, því það er svolítið erfitt að komast inn í skólann, þá ætla ég að fara í tölvuleikjahönnun eða eitthvað álíka í Tækniskólanum.“

Allir í hraðpróf fyrir útskriftarathöfnina

Útskriftarhátíð Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fór fram eins og áður sagði 18. desember síðastliðinn við hátíðlega athöfn í húsnæði skólans við Háholt 35 í Mosfellsbæ.

Að þessu sinni voru nítján nemendur brautskráðir. Af félags- og hugvísindabraut voru brautskráðir þrír nemendur og tveir af náttúruvísindabraut. Af opinni stúdentsbraut voru brautskráðir fjórtán nemendur þar af voru tveir af hestakjörsviði og einn af listakjörsviði.

Allir sem sóttu útskriftarhátíðina þurftu að fara í hraðpróf á undan og þurftu gestir að bera grímur við athöfnina, að sögn Margrétar. Að öðru leyti segir hún hátíðina hafa verið frekar hefðbundna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert