Ríkið sýknað að fullu í máli Gráa hersins

Hluti Gráa hersins fyrir utan dómsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur …
Hluti Gráa hersins fyrir utan dómsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur nú fyrir hádegi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska ríkið og Tryggingastofnun voru sýknuð í öllum þremur málum sem þrír félagar úr Gráa hernum, baráttuhópi eldra fólks um lífeyrismál, höfðuðu vegna skerðingar í almannatryggingarkerfinu.

Strax eftir dómsuppkvaðningu gáfu stefnendur upp að málinu yrði áfrýjað til Landsréttar.

Þrír félagar úr Gráa hernum höfðuðu málin að beiðni og fyrir hönd samtakanna á hendur Tryggingastofnun og íslenska ríkinu. Málið snýst í grunninn um hvort skerðingar í almannatryggingakerfinu standist stjórnarskrána, meðal annars eignaréttarákvæðið. Eru málin þrjú mismunandi, en Grái herinn telur að þau muni gefa heildstæða mynd af göllum almannatryggingakerfisins.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Máls­höfðunin var reist á því sjón­ar­miði að með skerðingu op­in­berra líf­eyr­is­greiðslna í hlut­falli við rétt­indi, sem elli­líf­eyr­istak­ar hafa áunnið sér í líf­eyr­is­sjóðum með vinnu­fram­lagi sínu og iðgjöld­um, sé gengið gegn stjórn­ar­skrár­vörðum eign­ar­rétti líf­eyr­istaka. Taldi Grái herinn að skerðingin nemi allt að 56,9% af greiðslum úr lífeyrissjóði.

„Í stað þess að sjóðfé­lag­ar fái sjálf­ir notið líf­eyr­is­sparnaðar síns séu rétt­indi þeirra í líf­eyr­is­sjóðunum notuð til að draga úr út­gjöld­um rík­is­ins til al­manna­trygg­inga,“ sagði í stefnu Gráa hersins.

Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður sést hér til vinstri á myndinni.
Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður sést hér til vinstri á myndinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður sagði við mbl.is eftir dómsuppkvaðninguna að næstu skref væru að setjast niður og lesa dóminn. Ekkert annað hefði verið ákveðið af hálfu ríkisins. Þá sagði hann að í málinu hefðu aðilar deilt um aðallega tvö ákvæði í stjórnarskránni. Annars vegar eignarréttaákvæðið (72. gr) sem stefnendur höfðu lagt upp með og svo um velferðarákvæðið (76. gr) sem ríkið hefði meðal annars bent á í vörn sinni. Þar segir: „Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.” Einar tók þó fram að málið snúist ekki um efni laganna þegar kemur að skerðingu í almannatryggingakerfinu, heldur hvort þau standist stjórnarskrána.

Þremenningarnir fengu stuðning frá Málshöfðunarsjóði Gráa hersins og VR í málunum, en auk þess ákvað dómsmálaráðherra að veita gjafsókn í málunum.

Úr réttarsal í morgun.
Úr réttarsal í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is