Undirrita samning um kaup á Bændahöllinni

Skrifað hefur verið undir samkomulag um sölu á Bændahöllinni.
Skrifað hefur verið undir samkomulag um sölu á Bændahöllinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Félagsstofnun stúdenta og ríkið hafa undirritað samning við Bændahöllina ehf., félags í eigu Bændasamtaka Íslands, um kaup á Bændahöllinni, þar sem Hótel Saga var rekin undanfarna áratugi. Rekstri þar var hins vegar hætt í nóvember 2020, en samningaviðræður um sölu á fasteigninni hafa staðið yfir lengi.

Greint er frá samkomulaginu á vef Bændasamtakanna, en ekki kemur þar fram hvert söluverðið er.

Áður hafði verið greint frá því aðáætlað væri að Háskóli Íslands fengi um 70% af húsnæðinu undir starfsemi menntavísindasviðs og Félagsstofnun stúdenta fengi 30% undir stútendaíbúðir. Áætlaður heildarkostnaður í kaupverði og endurbótum á hlut HÍ er um 6,5 milljarðar, en á móti kæmi mögulegt söluvirði af húsnæði skólans í Stakkahlíð og Skipholti, þar sem deildin er nú staðsett.

Í fjáraukalögum sem samþykkt voru í gær var fjármálaráðherra heimilt að kaupa eignina undir starfsemi háskólans, en samningurinn var gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis. Fram kemur í tilkynningunni að afhending hússins muni fara fram á næstu vikum og mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert