Feðgarnir tóku á móti 80 kúnnum í dag

Jón Halldór Guðmundsson og Hjálmar Gauti Jónsson við störf í …
Jón Halldór Guðmundsson og Hjálmar Gauti Jónsson við störf í dag, einum stærsta degi rakarastofunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Rakararnir og feðgarnir Jón Halldór Guðmundsson og Hjálmar Gauti Jónsson tóku á móti um 80 kúnnum í dag á Þorláksmessu, einum stærsta degi rakarastofunnar.

„Það er búið að vera alveg brjálað núna í tvær vikur, alveg frá morgni til kvölds og lítið um pásur. Það er eins og gengur og gerist örugglega víða,“ segir Jón, eigandi rakarastofunnar Effect við Bergstaðastræti í Reykjavík.

Hann segir annríkið þetta árið þó ekki einsdæmi heldur sé alltaf nóg að gera í aðdraganda jóla, enda fjölmargir landsmenn sem vilja gera sig fína áður en hátíðahöld hefjast. Þá sé einnig eitthvað að gera milli jóla og nýárs.

„Þorláksmessa er einn af stærstu dögunum og dagarnir þar á undan, við erum að klippa í kringum 80 saman í dag.“

Æðislegt að starfa með syni sínum

Feðgarnir hafa starfað saman í um sjö ár. Jón segir æðislegt að fá að starfa með syni sínum og þeir séu saman nánast út í eitt. Sjálfur hefur Jón starfað sem rakari í hátt í 42 ár.

„Þannig að hann er rétt að byrja miðað við mig,“ bætir hann við.

mbl.is