Dúx FB hannaði eigin fatalínu úr plasti

Andrea Rós Guðmundsdóttir er dúx Fjölbrautarskólans í Breiðholti með meðaleinkunnina …
Andrea Rós Guðmundsdóttir er dúx Fjölbrautarskólans í Breiðholti með meðaleinkunnina 8,89.

Andrea Rós Guðmundsdóttir út­skrifaðist úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti hinn 17. des­em­ber með meðal­ein­kunn­ina 8,89 og varð þar með dúx skól­ans að þessu sinni. Andrea er ein af tveimur stúdentum af fata- og textílbraut og hún segir það að hafa metnað og umkringja sig hvetjandi fólki lykilinn að góðum námsárangri.

Hefur unnið meðfram námi frá 13 ára aldri

Þótt Andrea hafi að eigin sögn ætíð lagt sig alla fram í námi segist hún aldrei hafa þorað að vona að hún myndi nokkurn tímann verða dúx.

„Ég hef ætíð lagt mig alla fram í námi en það var ekki markmiðið að verða dúx. Þetta kom mér því verulega á óvart. Ég bjóst alls ekki við þessu og var eiginlega alveg handviss um að Eyþór vinur minn, sem útskrifaðist með mér, yrði dúxinn.“

Hún segir nám ætíð hafa legið vel fyrir sér og hún hafi síður en svo þurft að sitja yfir námsbókunum allan daginn eftir skóla, innt eftir því.

„Námsálagið var mjög misjafnt eftir dögum en mér reyndist best að vinna í styttri lotum og reyna að vera alltaf á undan áætlun. Ég hef unnið með skóla síðan ég var 13 ára. Á fyrstu tveimur önnunum mínum í FB vann ég sem vaktstjóri í ísbúð en skipti svo nýlega yfir á Hrafnistu.“

Þá segir hún vel hafa gengið að sinna félagslífinu meðfram náminu enda sé hún að eigin sögn rík að eiga stóran vinahóp sem hún hitti oft og reglulega.

Hver er lykillinn að velgengni í námi?

„Lykillinn er að hafa metnað og hvetjandi fólk í kringum sig. Mamma mín hefur alltaf hvatt mig til að leggja mikinn metnað í námið og hún er mín helsta fyrirmynd.“

Lokaverkefni Andreu Rúnar var að hanna eigin fatalínu.
Lokaverkefni Andreu Rúnar var að hanna eigin fatalínu. Ljósmynd/Aðsend

„Andskoti leiðinlegt“ að sitja heima í faraldrinum

Aðspurð segir hún uppáhaldsfögin sín í skólanum hafa verið prjón- og hekltíma enda hafi þeir verið mikil gæðastund fyrir hana og samnemendur hennar.

„Þetta var bara eins og saumaklúbbur.“

Mikil röskun hefur orðið á skólahaldi á öllum skólastigum víða um landið frá upphafi kórónuveirufaraldursins og er Framhaldsskólinn í Breiðholti þar ekki undanskilinn en Andrea segir námið hafa verið fært á fjarform um tíma og það hafi reynst henni erfitt.

„Það hafði kannski ekki mikil áhrif á námið sjálft en mér fannst andskoti leiðinlegt að sitja heima allan daginn.“

Faraldurinn varð þó til þess að ekki var hægt að halda tískusýningu þar sem nemendur áttu að sýna afrakstur lokaverkefna sinna frá brautinni.

„Ég hannaði fatalínu fyrir verkefnið mitt og innblásturinn að henni var endurvinnsla á plasti. Ég saumaði flíkurnar úr plasti, sem er rosalega erfitt og gefur lítið svigrúm fyrir mistök,“ segir Andrea.

Útskrift FB fór fram við hátíðlega athöfn í Hörpu 17. desember eins og áður sagði en alls útskrifuðust 137 einstaklingar með 149 skírteini. Andrea segir athöfnina hafa verið nokkuð hefðbundna fyrir utan þá kröfu um að allir þyrftu að fara í hraðpróf fyrir og bera grímu innandyra.

Alls útskrifuðust 137 einstaklingar með 149 skírteini frá Fjölbrautarskólanum í …
Alls útskrifuðust 137 einstaklingar með 149 skírteini frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti 17. desember sl. Ljósmynd/Aðsend

Mamma, móðursystir og ömmur grétu af gleði

Andrea hlaut viðurkenningu fyrir bestan árangur á stúdentsprófi sem og viðurkenningu úr Styrktarsjóði Kristínar Arnalds fyrir bestan árangur í íslensku á stúdentsprófi. Þá hlaut hún einnig viðurkenningu frá Soroptimistaklúbbi Hóla og Fella fyrir framúrskarandi námsárangur.

Var fólkið þitt ekki stolt af þér? 

„Jú, þau voru rosalega stolt. Mamma, móðursystir mín og ömmur mínar grétu allar af gleði.“

Til að fagna áfanganum bauð Andrea nánustu fjölskyldumeðlimum sínum til lítillar veislu og hélt stuðinu svo áfram í útskriftarpartíi kærasta síns þar sem allur vinahópurinn fagnaði saman.

„Þegar aðstæður leyfa munum við halda almennilega veislu með allri fjölskyldunni.“

Innt eftir því segist Andrea ætla að hvíla námsbækurnar í bili og vinna fram að næsta hausti en þá stefnir hún á að sækja um í sálfræði í háskólanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert