Skjálftinn var 4,7 að stærð

Skjálftans varð vel vart í Grindavík.
Skjálftans varð vel vart í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Snarpur skjálfti reið yfir suðvesturhorn landsins klukkan 15.03 í dag. Varð hans meðal annars vart í Grindavík, á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi.

Skjálftinn átti upptök sín á Reykjanesskaga, nærri gosstöðvunum í Fagradalsfjalli, þar sem virkni hefur aftur tekið sig upp undanfarna daga. 

Endanlegar mælingar Veðurstofunnar benda til þess að skjálftinn hafi verið 4,7 að stærð, og orðið á 3,4 kílómetra dýpi.

Svo virðist sem annar skjálfti, 4,0 að stærð, hafi fylgt um mínútu síðar.

Fjöldi eftirskjálfta hefur mælst, en engin merki sjást um gosóróa.

Um tvö þúsund skjálftar hafa mælst á svæðinu frá miðnætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina