Dúx flutti frumsamið lag á útskriftarathöfninni

Benedikt Gylfason dúx og Þórunn Arna Guðmundsdóttir semidúx.
Benedikt Gylfason dúx og Þórunn Arna Guðmundsdóttir semidúx. Ljósmynd/Gunnar Vigfússon

Ekki geta margir státað af því að stunda háskólanám samhliða menntaskóla en einn þeirra er hann Benedikt Gylfason, sem útskrifaðist nýlega sem dúx Menntaskólans við Hamrahlíð með meðaleinkunnina 9,73 af opinni braut. 

Á útskriftarathöfninni gerði hann sér svo lítið fyrir og söng frumsamið lag eftir sjálfan sig með kór MH auk þess sem hann flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta ásamt Birgittu Sveinsdóttur.

Benedikt, sem kláraði stúdentsprófið á þremur og hálfu ári, varði öðru námsárinu í Noregi þar sem hann lærði klassískan ballett í listaháskólanum í Ósló samhliða menntaskólanum. Það var ekki fyrr en meiðsli komu upp og heimsfaraldurinn tók við sér sem hann ákvað að snúa aftur heim til Íslands og klára stúdentsprófið þar.

Spurður hvort það hafi ávallt verið markmið að dúxa segir Benedikt ekki svo vera. Hins vegar hafi hann lagt sig allan fram við að fá fínar einkunnir í skólanum síðustu annirnar.

„Ég fékk mjög fínar einkunnir á fyrsta árinu mínu þannig að ég sá alveg fram á að ég gæti það ef ég legði hart að mér. Það var bara frábært að þetta gekk vel.“

Kór MH ásamt kórstjóranum Hreiðari Inga Þorsteinssyni
Kór MH ásamt kórstjóranum Hreiðari Inga Þorsteinssyni Ljósmynd/Gunnar Vigfússon

Nokkuð slakur fyrir útskriftina

Eftir að Benedikt kom heim frá Noregi sat hann þó ekki aðgerðalaus milli heimalestursins heldur sinnti hann einnig hlutastarfi með skóla og lærði söng við MÍT. Þá hefur hann einnig verið að semja og gefa út popptónlist undir hinu viðeigandi listamannsnafni Benedikt.

Var því ekki nema við hæfi að á útskriftardaginn myndi skólakórinn, sem Benedikt var hluti af, syngja lag eftir dúxinn og bar það heitið Í hlýju hjarta þér.

„Mér fannst það bara takast mjög vel. Við vorum bara níu úr kórnum sem fluttum það þannig að það voru mjög fáir í hverri rödd.“

Hvernig voru taugarnar fyrir daginn, varstu stressaður?

„Nei ég var nokkuð slakur. Ég var búinn að undirbúa mig vel fyrir ræðuna. Svo vissum við náttúrlega ekki hver myndi dúxa þannig að það kom bara á óvart. Kannski aðallega stressaður yfir því að flytja kórverkið eftir mig.“

Stefnir á nám í Bandaríkjunum

Hann mun hefja nám í hljóðtækni í tækniskólanum sem byrjar í janúar og er kennt fram í desember, samtals þrjár annir. „Svo langar mig í háskóla í tónlist í útlöndum. Ég stefni á Berklee School of Music í Boston.“

Hvernig eru inngangskröfurnar?

„Þetta er erfitt og dýrt. Þetta er náttúrlega einkarekinn tónlistarskóli en ástæðan fyrir því að ég sótti um í hljóðtækni var til að bæta við mig svo ég hafi eitthvað fram yfir hina nemendurna. Þannig að ég verð með reynslu.“

Þrátt fyrir að hafa útskrifast á laugardaginn er Benedikt ekki kominn í jólafrí alveg strax. Hann mun syngja með MH-kórnum í miðnæturmessu í Hallgrímskirkju og hefur því verið á æfingum í þessari viku. „En eftir það þá er ég alveg í jólafríi,“ segir Benedikt að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert