„Gríðarlegur léttir að taka á móti fólkinu“

Brynja Dögg tók þátt í sinni fyrstu björgun á Miðjarðarhafinu …
Brynja Dögg tók þátt í sinni fyrstu björgun á Miðjarðarhafinu á dögunum. Ljósmynd/IFRC

Brynja Dögg Friðriksdóttir er stödd um borð í leitar- og björgunarskipinu Ocean Viking undan strönd Sikileyjar, þar sem beðið er eftir því að leyfi fáist frá evrópsku ríki fyrir því að koma með 114 flóttamenn í land. Hún er sendifulltrúi Rauða krossins og upplýsingafulltrúi Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) um borð í skipinu.

Hópnum var bjargað um borð í Ocean Viking 16. desember síðastliðinn eftir að hafa lagt á hafið frá Líbíu í opnum uppblásnum gúmmíbát. Yngsti einstaklingurinn sem var bjargað var 11 daga gamalt barn sem nú vex og dafnar um borð í skipinu.

Tvö ungbörn eru um borð, það yngra var 11 daga …
Tvö ungbörn eru um borð, það yngra var 11 daga gamalt þegar því var bjargað. Ljósmynd/Brynja Dögg/IFRC

Brynja Dögg segir ekkert námskeið eða þjálfun hefðu getað undirbúið sig fyrir þær tilfinningar sem hún upplifði þegar fólkinu var bjargað um borð í skipið. „Það var mikill léttir að þetta gekk allt vel fyrir sig, og allir komust heilu á höldnu um borð til okkar,“ segir hún í samtali við mbl.is.

„Sérstakt hvernig örlögin renna saman“

Hópurinn samanstendur að mestu leyti af ungum karlmönnum en 14 konur eru einnig í hópnum og fjögur börn. Það yngsta er orðið 18 daga gamalt, en þar fyrir utan er mánaðargamalt barn, eitt barn á þriðja ári og annað átta ára.

Flóttafólkið bíður nú eftir því að fá að fara í …
Flóttafólkið bíður nú eftir því að fá að fara í land í einhverju evrópsku ríki. Ljósmynd/Brynja Dögg/IFRC

„Það er svo sérstakt hvernig örlögin renna saman. Ocean Viking-skipið leggur af dag frá Marseille í Frakklandi hinn 5. desember, sem er sama dag og hann fæðist. Nú er hann orðin 18 daga og hefur varið bróðurparti ævi sinnar á sjó,“ segir Brynja Dögg.

Hefur upplifað mikinn náungakærleik

Enn er óvíst hvenær og hvar fólkið fær að fara í land en send var út ósk um það um leið og björgunin var afstaðin. Brynja Dögg segir misjafnt hve löng biðin getur verið í þessum aðstæðum, en fólkið mun fá að fara einhvers staðar í land, enda ber að koma fólki í neyð á hafi úti til aðstoðar, samkvæmt alþjóðalögum um hafsvæði (International maritime law).

Fjögur börn eru í flóttamannahópnum og hér bregður eitt á …
Fjögur börn eru í flóttamannahópnum og hér bregður eitt á leik í parís. Ljósmynd/Brynja Dögg/IFRC

„Við sendum út ósk fyrir um viku og höfum síðan sent ítrekun á hverjum degi. Það er margt sem bendir til þess að við verðum öll á þessu skipi á aðfangadag og jóladag líka, en auðvitað vonum við öll að fólkið komist í land sem fyrst.“

Flestir um borð eru frá Erítreu en Brynja Dögg segir um ótrúlega góðan hóp að ræða. „Það hafa ekki komið upp nein alvarleg vandamál. Ég hef orðið vitni að mjög fallegum stundum og upplifað mikinn náungakærleik hér um borð. Það er passað vel upp á börnin og margar fallegar stundir hafa átt sér stað.“

Björgunin gekk fumlaust fyrir sig 

Líkt og áður sagði var fólkinu bjargað 16. desember síðastliðinn en neyðarkall barst frá bátnum kvöldið áður. „Þá upphófst leit, því við vorum töluvert frá svæðinu þar sem kallið kom.

Við vorum vakin að morgni 16. desember. Þá var báturinn fundinn og við vorum komin í galla á örfáum mínútum. Það sást móta fyrir bátnum í kolniðamyrkri og hann var yfirfullur af fólki. Svo birti af degi en björgunin fór fram í dagsbirtu og hún gekk fumlaust fyrir sig, enda mikil fagmennska og reynsla meðal björgunarfólks hér um borð,“ segir Brynja Dögg, en báturinn fannst á alþjóðlegu hafsvæði utan við strendur Líbíu.

Allt er gert til að létta fólki lífið um borð, …
Allt er gert til að létta fólki lífið um borð, en meðal annars hefur verið spilað, lesið og hlustað á tónlist. Ljósmynd/Brynja Dögg/IFRC

„Þetta er mjög mikil hættuferð fyrir hvern þann sem leggur á Miðjarðarhafið á þessum árstíma á svona bát. Það gerir það enginn nema í algjörri neyð,“ bætir hún við.

Bara í desember hafa 262 einstaklingar farist á leið sinni yfir Mið-Miðjarðarhafið, á hafsvæðinu milli Líbíu og Ítalíu, samkvæmt skráningum Alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar (IOM), en á þessu ári hafa alls 1.508 einstaklingar farist á þessari leið, miðað við tölur frá 22. desember síðastliðnum. Frá því að stofnunin hóf að skrá þessar upplýsingar árið 2014 hafa 18.783 einstaklingar farist á sömu leið. Það er því ljóst að áhættan er mikil, enda bátarnir mjög vanbúnir fyrir sjóferðir af þessu tagi.

Margir kaldir og blautir

Það eru samtökin SOS MEDITERRANEE sem sjá um leitarhlið björgunarinnar en sendifulltrúar Rauða krossins sinna meira því starfi sem tekur við þegar flóttafólkið er komið um borð, auk SOS MEDITERRANEE. Fólkið er skráð og fær afhent hrein föt, handklæði og teppi og fær heilbrigðisþjónustu.

Fólkinu var bjargað þann 16. desember síðastliðinn.
Fólkinu var bjargað þann 16. desember síðastliðinn. Ljósmynd/Brynja Dögg/IFRC

„Langflestir eru ekki með neitt annað en fötin sem þeir klæðast. Sem dæmi þá eru mjög fáir í skóm. Fólk er berfætt eða í sokkum. Svo er fólk auðvitað búið að vera í volki úti á hafi í fleiri tíma og margir eru blautir og kaldir. Okkar forgangur er að fólk fái að fara í sturtu og hrein föt, fái teppi og hvíld. Svo fær það mat, frekari umönnun og þeir sem þurfa fá læknisaðstoð.“

Hver dagur hefur áhrif

Þótt ekki væsi um flóttafólkið um borð í Ocean Viking er biðin og óvissan farin að segja til sín. „Það reynir að sjálfsögðu á fólk að bíða í óvissu um hvað tekur nákvæmlega við. Það er mikil óvissa að leggja í þessa ferð út á sjó, og svo að bíða um borð í skipinu í fleiri daga eftir því að fá að fara í land, það eykur áhyggjur kvíða, og stress hjá fólki. Löng vera í þessum aðstæðum reynir einnig mjög á mæður og börn þeirra. Þótt báðir nýburarnir séu hraustir, þá eru þeir litlir miðað við aldur og hver dagur við þessar aðstæður getur haft áhrif á heilsu þeirra og mæðra þeirra.“

Í hópnum er mikið af ungu fólki sem ber von …
Í hópnum er mikið af ungu fólki sem ber von í brjósti um betra líf. Ljósmynd/Brynja Dögg/IFRC

Brynja segir allt gert til að létta fólki lífið og auðvelda biðina um borð í skipinu. Það hafi til að mynda verið dreginn fram kassi af bókum. Flestar þeirra hafi þó reynst vera á frönsku en þær fáu sem eru á ensku hafi verið mjög vinsælar. Þá hefur gúmmíbolti verið notaður í fótboltaleik og tónlist verið spiluð, spilað á spil, teiknað og fleira.

„Það var mikil þreyta í fólki fyrst um sinn en eftir því sem tíminn hefur liðið hafa fleiri bros sést og margar góðar stundir hafa átt sér stað.“

Vonar að fólksins bíði betra líf eftir hættuförina

Um er að ræða fyrstu sendiför Brynju Daggar fyrir Rauða krossinn, en hún fór á námskeið fyrir sendifulltrúa í október síðastliðnum og sótti í kjölfarið um að fara í sendiför á skipinu þegar hún sá auglýst eftir fólki.

Aðspurð hvort það sem hún hafi upplifað sé eitthvað í líkingu við það sem hún bjóst við segir hún í raun ekkert á skipinu sjálfu hafa komið sér á óvart og hún hafi ekki fundið fyrir sjóveiki. Hins vegar hafi björgunarstarfið verið nýtt fyrir henni og erfitt hafi verið að ímynda sér hvernig það færi nákvæmlega fram.

Fæstir höfðu skó á fótum sínum þegar þeir komu um …
Fæstir höfðu skó á fótum sínum þegar þeir komu um borð. En allir fá afhentar nauðsynjavörur í skipinu. Ljósmynd/Brynja Dögg/IFRC

 „Það er gríðarlegur léttir að taka á móti fólkinu, ungum sem öldnum, en á sama tíma dáist ég að hugrekkinu og seiglunni sem mér finnst fólkið í þessum hópi hafa sýnt. Það eru miklar raunir sem fólkið hefur gengið í gegnum á leið sinni til Evrópu. Það leggur enginn í svona ferð að gamni sínu. Þetta er gert í neyð,“ segir Brynja Dögg. „Stór hluti þessa fólks er ungt fólk og auðvitað vonar maður að þeirra bíði betri tækifæri í lífinu eftir þessa hættuför,“ bætir hún við.

Sérstakur andi svífur yfir

Brynja hefur áður upplifað jólin við sérstakar aðstæður, en hún hefur meðal annars starfað fyrir Íslensku friðargæsluna í Afganistan og Litháen. Hún segir þessi jól um borð í Ocean Viking langt frá því að verða þau skrýtnustu sem hún hefur upplifað.

Báðir nýburarnir eru léttir miðað við aldur og hver dagur …
Báðir nýburarnir eru léttir miðað við aldur og hver dagur við þessar aðstæður hefur áhrif á heilsu þeirra og mæðranna. Ljósmynd/Brynja Dögg/IFRC

„En þau verða án efa eftirminnileg. Ég held jólin hafi aldrei verið jafn nálæg í tíma en samt svo fjarlæg í huga mér á sama tíma, enda ekkert jólastress hér,“ segir Brynja Dögg þegar blaðamaður ræðir við hana síðdegis á Þorláksmessu. „En það svífur alveg sérstakur andi hér yfir og náungakærleikurinn er svo sannarlega fyrir hendi.“

Löng biðin um borð í skipinu hefur áhrif á alla.
Löng biðin um borð í skipinu hefur áhrif á alla. Ljósmynd/Brynja Dögg/IFRC
mbl.is