Mörg tár á hvarmi þegar fólkið kom í land

Tveir nýburar voru um borð í skipinu, en sá yngri …
Tveir nýburar voru um borð í skipinu, en sá yngri er rétt tæplega þriggja vikna. Ljósmynd/Brynja Dögg/IFRC

114 flóttamenn sem bjargað var á Miðjarðarhafinu um borð í leitar- og björgunarskipið Ocean Viking hinn 16. desember fengu síðdegis í gær leyfi til að koma í land í Trapani á Sikiley. Fólkið hefur hafst við á skipinu í rúma viku en í hópnum eru fjögur börn, þar af tveir nýburar og er sá yngri rétt tæplega þriggja vikna.

Brynja Dögg segir mikla gleði hafa gripið um sig þegar …
Brynja Dögg segir mikla gleði hafa gripið um sig þegar leyfið fékkst. Ljósmynd/IFRC

Mikil gleði greip um sig

Brynja Dögg Friðriksdóttir, sendifulltrúi Rauða krossins og upplýsingafulltrúi Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) um borð í skipinu, tók þátt í björguninni í síðustu viku.

Í samtali við mbl.is segir hún bæði flóttafólkinu og áhöfninni hafa verið mjög létt og að mikil gleði hafi gripið um sig þegar leyfið kom frá yfirvöldum í Trapani, en skipið lagði þar að bryggju um klukkan ellefu í morgun. 

Að loknu Covid-prófi þar sem allir reyndust neikvæðir, bæði flóttafólk og áhöfn, fékk fólkið að fara í land og segir Brynja Dögg mörg tár hafa verið á hvarmi. En ítalski Rauði krossinn tók vel á móti fólkinu á bryggjunni.

Ítalski Rauði krossinn tók vel á móti fólkinu í Trapani.
Ítalski Rauði krossinn tók vel á móti fólkinu í Trapani. Ljósmynd/Brynja Dögg/IFRC

1.508 farist á árinu

Flestir í hópnum eru frá Erítreu en fólkið fór frá Líbíu í opnum og yfirfullum gúmmíbát. Um er að ræða mikla hættuför sem enginn leggur í nema í algjörri neyð, að sögn Brynju Daggar.

Á þessu ári hafa 1.508 einstaklingar farist á hafsvæðinu á milli Líbíu og Ítalíu, en bátarnir eru mjög vanbúnir fyrir sjóferðir af þessu tagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert