Flestar innlagnir enn vegna Delta-afbrigðisins

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hátt í 700 einstaklingar greindust með Covid-19 hér á landi í gær en líklegt er að um 80% þeirra séu með Ómíkron-afbrigðið ef tekið er mið af þeirri þróun sem uppi hefur verið síðustu daga. Meirihluti þeirra sem lagst hafa inn á spítala vegna Covid-19 undanfarið hafa þó verið með Delta-afbrigði veirunnar. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Að sögn Þórólfs má búast við fleiri smitum á næstu dögum og hefur toppnum því ekki enn verið náð. Hann vill þó ekki leggja mat á það hversu háar tölur séu í kortunum, en áður höfðu Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, og Þórólfur sagt að búast mætti við 600 smitum á dag, sem raungerðist í gær þegar 664 greindust innanlands. Var það ríflega fjórðungur þeirra sem fóru í sýnatöku.

Fjórir á dag í marga daga mikið

Í síðustu viku sagði Þórólfur í viðtali við mbl.is að það tæki eina til tvær vikur fyrir innlagnir á spítala að endurspegla smittíðni í samfélaginu. Vika er nú liðin frá því að fjöldi greindra smita innanlands á dag varð 200 – og hefur þeim fjölgað sífellt síðan þá.

Bjóstu við fleiri innlögnum um þessar mundir?

„Ég veit svo sem ekki við hverju er að búast. [...] Það ræðst núna á næstu dögum hvað gerist.“

Hann segir þó kúrfu spítalainnlagna og fjölda á gjörgæslu hægt og bítandi sigla upp.

„Það kæmi mér ekkert á óvart að við færum að sjá aukningu miðað við þessa miklu aukningu sem er í samfélaginu á smitum. Þá erum við að miða við þetta sama hlutfall og Danir hafa verið að sjá – þetta 0,7% – þannig að það er bara ekki komin reynsla á það. Auðvitað er maður ánægður ef það er ekki meira en fjórir á dag í marga daga, það getur orðið ansi mikið ef það safnast saman.“

Helmingur þeirra sem leggjast inn óbólusettur

Að sögn Þórólfs er um helmingur þeirra sem leggjast inn á spítala óbólusettur, líkt og áður.

„Þeir sem veikjast alvarlega og eru með meiri veikindi, það er yfirleitt óbólusett fólk.“

Er forsvaranlegt að halda uppi miklum takmörkunum ef stór hluti þeirra sem leggjast inn er óbólusettur?

„Það fer eftir því hversu margir veikjast alvarlega. Ástæðan fyrir þessum takmörkunum er að reyna að halda kúrfunni niðri þannig að við fáum ekki yfirþyrmandi marga veika á spítalann. Það er það sem þetta snýst um.

Bólusetningarnar eru svo sannarlega liður í því að milda sýkinguna og forða fleirum frá því að veikjast alvarlega. Tilgangurinn með því að gera þetta svona er að forða heilbrigðiskerfinu frá því að yfirfyllast af alvarlega veiku fólki með ómíkron þannig að það komi ekki niður á annarri starfsemi.“

Hvað getur spítalinn tekið á móti mörgum?

„Ég held það sé best að spítalinn svari því sjálfur.“

Flestir sem leggjast inn með Delta

Samkvæmt upplýsingum á vef Landspítala eru 14 sjúklingar á spítalanum vegna Covid-19-sjúkdómsins, þar af fimm á gjörgæslu og þrír í öndunarvél. Að minnsta kosti tveir eru með Ómíkron-afbrigði veirunnar, að því er fram kemur á vefnum.

Að sögn Þórólfs lögðust fjórir inn í gær en ekki liggur fyrir hvaða afbrigði veirunnar þeir voru með en fram til þessa hafa flestir þeirra sem lagst hafa inn á spítala vegna veirunnar greinst með Delta-afbrigðið.

Hann segir koma í ljós á næstu dögum hvort spítalainnlögnum vegna Ómíkron-afbrigðisins fari að fjölga, enda hafa flestir greinst með það afbrigði síðustu daga. Delta-afbrigðið fyrirfinnst þó enn í samfélaginu.

„Það eru langflestir með Ómíkron. Síðast þegar ég vissi var það yfir 75%. Það kæmi mér ekki á óvart ef það væri komið yfir 80%.“

mbl.is