Gætum átt von á fjöldasamkomu á spítalanum

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er ólíklegt að fjöldi smita síðustu daga muni brátt leiða til fjöldasamkomu inni á spítala. Ef tölurnar sem við höfum séð að utan um spítalainnlagnir vegna Ómíkron-afbrigðisins reynast réttar má leiða líkur að því að fjórir muni leggjast inn einungis vegna þeirra smita sem greindust í gær. Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við mbl.is.

Hátt í fimm hundruð einstaklingar hafa greinst með kórónuveiruna daglega upp á síðkastið hér á landi. Metfjöldi greindist innanlands á aðfangadag þegar 493 fengu jákvæða niðurstöðu úr PCR-prófi samkvæmt bráðabirgðatölum almannavarna.

Uppfært 11:52

Samkvæmt tölum á covid.is greindust hátt í 700 í gær, annars vegar 664 innanlands og hins vegar 8 á landamærum. Sem er nýtt met.

Ákvörðun heilbrigðisráðherra óskynsamleg

Að sögn Kára má mögulega rekja aukinn fjölda smita til óskynsamlegrar ákvörðunar nýs heilbrigðismálaráðherra sem ákvað að veita undanþágu á Þorláksmessu fyrir vínveitingastaði og stóra tónleika. Segir hann fjölda smita mögulega fara hækkandi næstu daga.

„Það sem mér finnst standa upp úr þegar ég horfi til baka síðan faraldurinn kom er hversu skynsamlega ríkisstjórnin tók á tillögum sóttvarnalæknis. Þangað til inn kemur nýr heilbrigðismálaráðherra sem lætur það vera raunverulega sitt fyrsta verk að ganga gegn ráðleggingum sóttvarnalæknis.“

Ekki farin að finna bragðið af lokunum

Spurður út í umræðuna sem hefur verið uppi um að Ómíkron-afbrigðið marki endann á faraldrinum segir Kári endalokin enn ekki í augsýn.

„Eins og stendur þá erum við ekki að finna bragðið af lokunum. Við erum að takast á við alveg gífurlega stóra bylgju. Þótt hún sé vægari – við ætlum að reikna með því að 0,7% af þeim sem sýkjast endi inni á spítala – þá ætti dagurinn í gær að skila eins og fjórum einstaklingum inn á spítala.“

Megum við búast við að spítalainnlögnum fari fjölgandi bráðum?

„Mér finnst það ekki ólíklegt. Ef tölurnar sem maður heyrir eru réttar, þá erum við að stefna í fjöldasamkomu inni á spítala.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert