Óvissustigi vegna Log4j aflétt

AFP

Ríkislögreglustjóri hefur, í samráði við netöryggissveit CERT-IS og Fjarskiptastofu, aflétt óvissustigi almannavarna vegna Log4j-veikleikans. Allir ómissandi innviðir og þjónusta starfa eðlilega og eru ekki skert eða takmörkuð.

Rekstraraðilar kerfa hafa brugðist vel við undanfarnar vikur og náð tökum á veikleikanum, að því er segir í tilkynningu.

Tekið er fram að ekkert atvik hafi verið tilkynnt þar sem brotist hafi verið inn í kerfi með Log4j-veikleikanum.

„Fylgst verður áfram náið með kerfum og hegðun þeirra ásamt þróun veikleikans á heimsvísu og hvaða áhrif hún gæti haft. Rekstraraðilar eru hvattir til að vakta kerfi sín sérstaklega og fylgjast með óeðlilegri hegðun sem og nýjum uppfærslum á Log4j-kóðasafni.“

mbl.is