Biðja fólk að vera tímanlega í flugeldakaupum

Flugeldasala Landsbjargar hefst í dag og er fólk hvatt til …
Flugeldasala Landsbjargar hefst í dag og er fólk hvatt til að vera tímanlega í innkaupum. mbl.is/Árni Sæberg

Flugeldasala björgunarsveitanna hefst í dag, en síðustu daga hafa sjálfboðaliðar flokkað vörur og sett upp sölustaði sem verða opnir frá morgni til kvölds.

Blaðamaður náði tali af Jónasi Guðmundssyni hjá Flugbjörgunarsveitinni í gær þar sem hann var í óðaönn að setja upp sölustað sveitarinnar við Flugvallarveg í Öskjuhlíð. Hann segir flugeldasöluna verða með hefðbundnu sniði í ár en það komi alltaf inn einhverjar nýjar vörur.

„Þetta verður með hefðbundnu sniði miðað við Covid og við biðlum til fólks að reyna að dreifa svolítið traffíkinni þannig að það komi ekki allir eftir hádegi á gamlársdag,“ segir Jónas.

Flestir sölustaðir verða með opið frá klukkan 10:00 til 22:00 en á landsbyggðinni er afgreiðslutíminn misjafn. Það ætti því að að vera nægur tími fyrir skotglaða að birgja sig upp af flugeldum í tæka tíð fyrir áramótin.

Stýrt inn á bílastæði og talið inn á sölustaði

„Það er auðvitað ákveðin stemning falin í því að mæta eftir hádegi á gamlársdag, en það þýðir að fólk gæti lent í einhverjum biðröðum,“ segir hann, en öllum sóttvarnareglum verður fylgt til hins ýtrasta og takmarkaður fjöldi fær að fara inn á sölustaðina í einu.

„Við verðum með mannskap bæði til að stýra inn á bílastæði og eins til að telja inn á staðina og allir með grímu og spritt og tæki og tól til að halda öllu í lagi.“

Þá er einnig öllu farið með gát meðal sjálfboðaliðanna sem sjá um flugeldasöluna en allir sem voru í vinnu í gær fóru í hraðpróf áður en þeir hittust á lagernum til að sortera vörur. „Við reynum líka að færa fólk ekki meira á milli sölustaða en þörf er á og svo framvegis. Þannig að við reynum að passa þetta eins og hægt er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka