Flestir bílar fráteknir til áramóta

Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.
Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju. mbl.is/Golli

Aukin eftirspurn hefur verið eftir tengiltvinnbílum á undanförnum vikum, væntanlega vegna áforma stjórnvalda um að framlengja ekki ívilnun í virðisaukaskatti af þannig bílum. Er nú svo komið að þeir bílar sem næst að skrá fyrir áramót eru að mestu eða fullu fráteknir hjá þeim bílaumboðum sem rætt var við í gær.

Ef ekki verða gerðar breytingar við lokaafgreiðslu fjárlagafrumvarps fellur niður hluti vsk-ívilnunarinnar um áramót og öll ívilnunin þegar vissum kvóta verður náð og er búist við að það gerist fljótlega á nýju ári. Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, segir að við það muni útsöluverð bílanna líklega hækka um 960 þúsund. Það komi sér sérstaklega illa fyrir kaupendur bíla á verðbilinu fjórar til sex milljónir, þar verði hækkunin hlutfallslega mikil. Þetta séu dæmigerðir bílar fyrir ungt fólk sem býr úti á landi og vill geta ekið langar leiðir en sé ekki tilbúið að taka skrefið til fulls yfir í rafmagnsbíl. Nýjustu kynslóðir tengiltvinnbíla hafi 40 til 100 kílómetra drægni á rafmagni og geti flestar fjölskyldur ekið mikið á rafmagni einu saman en þurfi þó ekki að hafa áhyggjur af drægninni ef þær þurfi að komast lengra.

Góð áhrif á söluna

Samkvæmt upplýsingum Páls Þorsteinssonar, upplýsingafulltrúa Toyota á Íslandi, hafa ívilnanirnar sannarlega hjálpað til við rafvæðingu bílaflotans og þær hafi haft góð áhrif á söluna. „Áhugi Íslendinga á rafmagnsbílum og tengiltvinnbílum er greinilegur og skiljanlegur því hér höfum við ódýrt rafmagn sem framleitt er á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt og það er ánægjulegt að við getum notað innlenda orku á bílana okkar. Hvort fyrirhuguð breyting á ívilnunum hefur áhrif á sölu á eftir að koma í ljós,“ segir í skriflegu svari Páls.

Frá áramótum og fram til jóla höfðu verið skráðir hér á landi 3.223 tengiltvinnbílar sem eru rúm 26% nýskráðra bíla. Allt árið 2020 voru skráðir 1.859 bílar sem voru tæp 20% af skráningum það ár. Aukningin er því talsverð og meiri hlutfallslega en á bílum sem aðeins ganga fyrir rafmagni. Skráðir voru 3.446 rafmagnsbílar frá áramótum til jóla, sem eru tæp 28% skráninga en hlutfallið var rúm 25% allt árið 2020.

Ekki er að sjá að breytingin sé mikil í desember, hvað svo sem gerist á milli jóla og nýárs, því 270 tengiltvinnbílar voru skráðir í desember, fram til jóla, á móti 295 allan mánuðinn í fyrra. Fréttir um áform um niðurfellingu vsk-ívilnunar ýttu fólki af stað, samkvæmt upplýsingum bílaumboða, en áhrifin virðist hafa komið meira fram í nóvember en allra síðustu vikur ársins, skv. tölum.

Hins vegar er framboðið orðið takmarkað og ekki svigrúm til að fá fleiri bíla til landsins. Þá hefur það áhrif að ívilnun fæst út á bílana þegar þeir eru skráðir og það tekur að lágmarki 3-4 daga að fá bíl afgreiddan úr tolli og skráðan. Þess vegna er svigrúmið til skráninga að verða búið með þeim bílum sem þegar hafa verið pantaðir.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert