Aldrei fleiri í einangrun og sóttkví

Fjöldi fólks hefur farið í sýnatöku síðustu daga á Suðurlandsbraut.
Fjöldi fólks hefur farið í sýnatöku síðustu daga á Suðurlandsbraut. mbl.is/Sigurður Bogi

Eins og staðan er núna eru 5.534 í einangrun með Covid-19 og 7.710 í sóttkví en alls eru því 13.244 annaðhvort í einangrun eða sóttkví hér á landi og hafa ekki verið fleiri frá upphafi faraldurs í febrúar á síðasta ári.

Samanlagður fjöldi fólks í einangrun og sóttkví er meiri en íbúar Mosfellsbæjar en þar búa 12.580. Miðað við íbúatölur á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga yrði „sveitarfélagið“ fólk í einangrun og sóttkví sjöunda stærsta sveitarfélag landsins á eftir Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Akureyri og Reykjanesbæ.

Nýgengi smita innanlands á hverja 100 þúsund íbúa er 1.526,6 og hef­ur það aldrei verið hærra. Síðustu sjö daga hefur samtals 4.091 greinst með veiruna innanlands.

Einnig greinist töluverður fjöldi á landamærunum en í gær greindist þar 81 smit, sem er það mesta frá upphafi faraldursins.

Langflestir eru í einangrun á aldrinum 18-29 ára, 1.824. 1.021 er í einangrun á aldrinum 30-39 ára, 766 á aldrinum 40-49 ára og 656 á aldrinum 6-12 ára. Færri eru í einangrun í öðrum aldurshópum. 

Eins og oft áður í faraldrinum eru langflestir í einangrun í þeim hluta landsins þar sem flestir búa; á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru nú 4.170 í einangrun og 5.696 í sóttkví.

Ljósmynd/Covid.is

383 eru í einangrun á Suðurnesjum og 575 í sóttkví, 375 í einangrun á Suðurlandi og 576 í sóttkví, 150 í einangrun á Norðurlandi eystra og 316 í sóttkví og færri í öðrum landshlutum. 257 smit eru óstaðsett en það á líklega við um ferðafólk sem smitast hefur hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina