Bæjarstjórinn kærður fyrir mögulegt auðgunarbrot

Höfn í Hornafirði. Í kærunni segir að bæjarstjórinn hafi neitað …
Höfn í Hornafirði. Í kærunni segir að bæjarstjórinn hafi neitað að gefa skýringar á reikningnum. mbl.is/Sigurður Bogi

Kæra hefur verið lögð fram á hendur Matthildi Ásmundardóttur, bæjarstjóra Hornafjarðar, og eftir atvikum fleiri kjörnum fulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins, vegna meintrar tilraunar til að hafa fé af félaginu Hátíðni ehf. með ólögmætum og saknæmum hætti. Kæran er lögð fram vegna mögulegs auðgunarbrots og brots í opinberu starfi.

Er því haldið fram í kærunni, sem mbl.is hefur undir höndum, að verið sé að nota tilhæfulausan reikning til að skuldajafna á móti kröfu sem gerð hefur verið á sveitarfélagið, og að um sé að ræða tilraun til auðgunar.

Notuðu áfram gagnatengingar án samnings

Forsaga málsins er að Hornafjörður var með þjónustusamning við Hátíðni ehf. um rekstur tölvu- og upplýsingakerfis í tugi ára en samningnum var sagt upp í júní 2017. Hluti af þjónustunni voru gagnatengingar sem sveitarfélaginu bar að hætta allri notkun á við samningslok.

Samkvæmt kærunni var notkun hins vegar ekki hætt og sendi Hátíðni sveitarfélaginu reikninga fyrir notkuninni. Um þá skapaðist ágreiningur og hafa þeir ekki verið greiddir þrátt fyrir greiðsluáskoranir, en dómsmál vegna þess máls er nú rekið fyrir héraðsdómi Austurlands.

Létu útbúa reikning vegna meintrar leigu

Í kærunni kemur fram að í tilraun sveitarfélagins til að komast undan greiðsluskyldu hafi verið útbúinn ólögmætur reikningur á Hátíðni ehf., vegna meintrar leigu á aðstöðu í Gamla vatnstanknum, húsnæði í eigu sveitarfélagsins. En eigandi félagsins hefur verið með lítið loftnet uppi á tanknum.

Á myndinni má sjá gula ör sem bendir á línu …
Á myndinni má sjá gula ör sem bendir á línu þar sem loftnetið var staðsett. Umfang línunnar er svipað og loftnetið, sem nú hefur verið fjarlægt. Ljósmynd/Aðsend

Hafnar hann greiðsluskyldu á þeim forsendum að samkomulag hafi verið í gildi á milli hans og sveitarfélagsins þess efnis að hann hafi lykil að vatnstanknum og þjónusti sveitarfélagið, meðal annars með því að hleypa inn starfsmönnum fjarskiptafyrirtækja sem eru þar með búnað, yfirleitt á kvöldin og um helgar svo sveitarfélagið þurfi ekki að ræsa út starfsmenn með tilheyrandi kostnaði. Þetta hefur fyrrverandi forstöðumaður sveitarfélagsins staðfest. Þá sé loftnetið hans persónulega eign en ekki fyrirtækisins.

Skýrt merki um ásetning, ólögmæti og tilraun til auðgunar

Í kærunni er jafnframt bent á að ekkert samræmi sé í verðlagningu á leigu þar sem sveitarfélagið ætli sér að rukka Hátíðni ehf. jafn mikið fyrir meinta leigu á aðstöðu fyrir loftnetið, sem er um 57 cm á hæð og um 2 cm í þvermál, og verið er að rukka Nova hf. fyrir geymslu á miklu magni af búnaði inni í tanknum sem tekur töluvert pláss. Reikningurinn frá sveitarfélaginu hljóðar upp á 1,8 milljónir króna. 

Fram er tekið að Matthildur Ásmundardóttir hafi neitað að gefa skýringar á reikningnum eða komið sér undan að svara.

Í kærunni segir að af öllu ofangreindu virðist sem bæjarstjóri og eftir atvikum aðrir starfsmenn eða kjörnir fulltrúar séu að nota tilhæfulausan, falsaðan reikning í lögskiptum. Sú staðreynd að kröfunni sé haldið til streitu, þrátt fyrir staðfestingu fyrrverandi forstöðumanns á því að samkomulag hafi verið í gangi á milli sveitarfélagsins og viðkomandi, sé skýrt merki um ásetning, ólögmæti og tilraun til auðgunar.

mbl.is leitaði viðbragða hjá Matthildi en hún vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert