Ferðamenn þægir þrátt fyrir litla gæslu

Minnst 2.804 manns hafa gengið gosslóðann í Geldingadölum á sl. …
Minnst 2.804 manns hafa gengið gosslóðann í Geldingadölum á sl. sjö dögum. mbl.is/Sigurður Unnar

Þótt langt sé síðan það sást síðast til glóðar í Geldingadölum heldur gosslóðinn áfram að lokka og virðast ferðamenn sem ganga hann haga sér vel þrátt fyrir að dregið hafi verið úr gæslu á svæðinu. Þetta segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Grindavíkur, í samtali við mbl.is.

„Það hefur ekki verið neitt vesen ennþá allavega. Þau eru ósköp spök þarna,“ segir hann.

Meiri umferð um svæðið en mælar segja til um

Samkvæmt Mælaborði ferðaþjónustunnar hafa minnst 2.804 manns gengið slóðann á síðastliðnum sjö dögum. Þessi talning sé þó ekki alveg marktæk, að sögn Boga.

„Það má vel tvöfalda þessa tölur sem mælirinn nefnir enda segir hann ekkert alltaf satt.“

Inntur eftir því segir hann björgunarsveitina Þorbjörn ekki vera með skipulagða gæslu á svæðinu lengur enda ekki talin þörf á því og að sveitin hafi ekki þurft að fara í útkall á svæðinu nýlega.

„Þetta er allt bara með góðu móti eins og er. Jarðskjálftarnir eru farnir að dreifast meira um landið og allir að fá gleðiboðskapinn,“ segir hann og skellir upp úr.

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.
Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík. Photo/Sigurður Bogi Sævarsson

Stjórnstöð Þorbjarnar lokað vegna Covid

Veðurstofa Íslands hefur þó lýst yfir óvissustigi vegna jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall og því séu björgunarsveitarmenn Þorbjarnar enn vakandi fyrir þróun mála, að sögn Boga.

„Stjórnstöðin okkar er reyndar lokuð vegna Covid en við fylgjumst samt alveg með. Eina sem við getum gert núna er að reyna verja okkur fyrir veirunni.“

Spurður segir hann nokkra björgunarsveitarmenn Þorbjarnar hafa þurft að fara í sóttkví vegna faraldurins en að þeir séu komnir til baka.

„Það er því enginn af okkar mönnum úr leik vegna Covid eins og staðan er núna, að því er ég best veit allavega.“

Inntur eftir því segir Bogi björgunarsveitina Þorbjörn ekki vera með neinn sérstakan viðbúnað yfir áramótin enda sjái slökkviliðið um algengustu slysin sem gjarnan eigi sér stað á þeim tíma, þ.e. flugeldaslysin.

„Það þyrfti helvíti mikið af sprengjum til að við færum af stað held ég. Við höfum þó alveg lent í því að þurfa fara í leitir og annarsskonar verkefni á nýársdag. Þetta er alltaf sama viðbragðið. Við erum alltaf tilbúin. Það er bara þannig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert