Nubo felldi næstum ríkisstjórnina

Frásögnin er mín sýn á málefnin, verkalýðsbaráttuna og pólitíska þróun …
Frásögnin er mín sýn á málefnin, verkalýðsbaráttuna og pólitíska þróun síðustu ár, segir Ögmundur Jónasson um bókina Rauði þráðurinn. mbl.is/Sigurður Bogi

„Að loknum kosningum 2013 var VG orðinn breyttur flokkur og skal fúslega viðurkennt að hjarta mitt var dapurt. Gleðin var horfin.“ Þetta segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður, í niðurlagi bókar sinnar, Rauði þráðurinn.

Í Morgunblaðinu í gær sagði frá bókinni sem kemur formlega út á nýársdag. Þar fer höfundurinn yfir pólitíska vegferð sína sem spannar áratugi. Vegferð þessi hófst þegar Ögmundur var í forystu félags starfsmanna sjónvarpsins, sem létu mjög til sín taka í verkfalli BSRB haustið 1984. Fjórum árum seinna var Ögmundur kjörinn formaður BSRB og gegndi því embætti allt til 2009, þá fjórtán árum áður orðinn þingmaður, fyrst Alþýðubandalagsins og óháðra og síðar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Andstaðan þyngdi andrúmsloftið

Ögmundur var – með hléi – einn af ráðherrum VG í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem var við völd 2009-2013. Var fyrst heilbrigðis- en síðar innanríkisráðherra. Í síðarnefnda embættinu lagðist hann gegn boðuðum kaupum Kínverjans Huans Nubos á Grímsstöðum á Fjöllum, en sú afstaða hans þyngdi mjög andrúmsloftið í ríkisstjórninni, svo hún riðaði til falls.

„Að skrifa söguna sjálfa tók ekki ýkja langan tíma. Þó lagði ég mikla vinnu í að skrifa suma kaflana af sagnfræðilegri nákvæmni. Þar nefni ég Icesave-samningana og aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem voru stórmál í tíð ríkisstjórnarinnar 2009-2013. Aðildarumsókn að ESB var Vinstri grænum raunar afar erfið,“ segir Ögmundur í samtali við Morgunblaðið.

„Á þessum tíma voru mikil átök í stjórnmálunum og sýn fólks á hlutina ólík. Ýmsir hafa skrifað um þennan tíma og mál sem þá voru í deiglunni. Mitt innlegg þarna verður þá sem flísar í stóra mósaíkmynd. Árin fyrst eftir hrunið og atburðir þá eru þó sennilega of nálægt okkur í tíma þannig að heildarmyndin verði hlutlæg í hugum fólks. Móðurinn er enn að renna af mönnum.“

Lengra viðtal við Ögmund má finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »