Broddi Broddason hættir í vor

Broddi Broddason, varafréttastjóri RÚV, hyggst láta af störfum á fréttastofu Ríkisútvarpsins næsta vor. Hádegisfréttalestur Brodda var því sá síðasti sem hann les á gamlársdag á löngum og farsælum ferli. Tilkynnti hann þetta með óformlegum hætti í starfslokafögnuði starfsmanna RÚV er verið var að kveðja Rakel Þorbergsdóttur, fráfarandi fréttastjóra RÚV.

Að sögn Brodda hitti blaðamaður „djöfullega“ á hann þar sem hann ætlaði að leggja sig. Hann gaf sér þó tíma til að svara spurningum þess efnis að hann væri hættur og hefði verið að lesa sinn síðasta fréttatíma nú í hádeginu.

„Nei, það er haugalygi, en ég var að öllum líkindum að lesa í síðasta sinn á gamlársdag.“

Hættir í vor

Segist Broddi gera fastlega ráð fyrir því að hann hætti nú í vor en engin formleg tilkynning hafi verið send út. Hann vildi þó láta Rakel Þorbergsdóttur, fráfarandi fréttastjóra, vita og því hafi þetta borist í tal í kveðjufögnuðinum. Ekkert hernaðarleyndarmál að hans sögn.

Broddi hefur verið fastráðinn á fréttastofu Ríkisútvarpsins frá árinu 1986 og segist þó hafa verið viðloðandi stofnunina frá því fyrir 1980.

Þú ætlar þá kannski að bíða með alla tilfinningasemi varðandi starfslok þar til nær dregur?

„Já, veistu, ég held ég geri það bara,“ segir Broddi léttur í lund.

Broddi Broddason, varafréttastjóri RÚV, lætur að störfum í vor eftir …
Broddi Broddason, varafréttastjóri RÚV, lætur að störfum í vor eftir rúmlega 40 ára starf.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert