Þrjú ný farsóttarhús

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa.
Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsfólk farsóttarhúsa var í gær í óðaönn að kalla inn gesti í einangrun í nýtt hótel sem Rauði krossinn hefur fengið til afnota í þeim tilgangi. Myndast hafði biðlisti en Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa, vonaðist í gær til þess að ný aðstaða dygði til að hreinsa upp biðlistann. Búast má við að 350-400 manns gisti þar um áramótin en það svarar til íbúafjölda Hellissands.

Sjúkratryggingar hafa samið við ferðaþjónustufyrirtæki um að fá 200 herbergja hótel til notkunar fyrir fólk sem sýkst hefur af kórónuveirunni. Álma með 100 herbergjum var tekin í notkun í gær og fyrradag og önnur hundrað herbergi komast í gagnið næstkomandi mánudag. Enn eru almennir gestir á hótelinu en þeir verða fluttir á önnur hótel.

Húsin fyllast jafnóðum

Gylfi Þór sagði í gærmorgun að reiknað væri með því að nýja aðstaðan myndi fyllast í gær, meðal annars með því að taka alla inn sem voru komnir á biðlista. Bjóst hann við því að nýr biðlisti myndi myndast um helgina en væntanlega yrði hægt að leysa úr þeim vanda á mánudaginn, þegar seinni helmingur hótelsins bætist við. Gylfi segir að fólk sem dvelur í farsóttarhúsum sé að meirihluta til Íslendingar en í vaxandi mæli erlendir ferðamenn sem greinast með Covid við skimum fyrir flug frá landinu. Gestirnir eru á öllum aldri. Þannig var yngsti gesturinn sem von var á í gær 20 mánaða gamalt barn.

Þegar nýja hótelið hefur verið tekið í notkun að fullu verða farsóttarhúsin með fjögur hótel undir á höfuðborgarsvæðinu og eitt á Akureyri, með alls 455 herbergjum. Í fyrstu viku janúarmánaðar bætast síðan við tvö hótel til viðbótar þannig að gestafjöldinn getur náð um 600 manns. Samsvarar það íbúafjölda Eyrarbakka. „Þetta ræðst af smittölum og við verðum svolítið að elta skottið á okkur þangað til við fáum viðbótina í janúar,“ segir Gylfi Þór.

Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert