Barnið fæddist við afleggjara sveitabæjar

Nýbakaðir foreldrar auk stúlkunnar, fyrsta barni ársins.
Nýbakaðir foreldrar auk stúlkunnar, fyrsta barni ársins.

Þau Elfa Sif Kristjánsdóttir og Ásgeir Frímannsson eru foreldrar fyrsta barnsins sem fæddist á árinu 2022. Settur dagur var ekki fyrr en eftir tvær vikur og voru þau stödd á Siglufirði í sjötugsafmæli hjá föður Elfu þegar allt fór af stað.

„Já, hún missti vatnið um tíuleytið í gær og við vorum komin upp í sjúkrabíl nokkrum mínútum síðar,“ segir Ásgeir, nýbakaður faðir, í samtali við mbl.is.

Sjálf eru þau búsett á Ólafsfirði en eins og áður segir voru þau á Siglufirði og var því ljóst að rúmlega klukkutíma ferðalag beið þeirra á leiðinni inn á sjúkrahúsið á Akureyri. Ljósmóðirin var svo stödd á Dalvík og segir Ásgeir það hafa passað ansi vel.

„Þetta var mjög heppilegt. Ljósmóðirin var á Dalvík svo við gátum bara stoppað þar og tekið hana upp í bílinn.“

Það var svo mat ljósmóðurinnar að stöðva skyldi bílinn við afleggjarann hjá bænum Kálfskinni á Árskógsströnd og fæddist barnið þar stuttu fyrir hálfeitt í nótt. Fæddi Elfa þá stúlkubarn og að sögn Ásgeirs heilsast móður og barni „súper vel“.

Eftir að pæla í nafninu

Elfa á eitt barn úr fyrra sambandi en stúlkan er fyrsta barn þeirra Ásgeirs saman. Segir hann ljóst að þetta hafi ekki verið alveg eins og þau sáu það fyrir sér, enda tvær vikur í settan dag. „Þrátt fyrir að þetta hafi verið rosalega sérstakt þá var þetta mjög gaman líka“, segir hann.

Ekki liggur fyrir nafn á stúlkuna og segir Ásgeir raunar: „Neinei ,það á alveg eftir að pæla í því líka. Settur dagur var náttúrlega fjórtándi janúar.“

Flestir landsmenn eru vanir því að nokkurrar þreytu gæti á fyrsta degi nýs árs. Ásgeir segir svo vera hjá nýbökuðu foreldrunum en þetta sé samt „öðruvísi þreyta, en alveg svakalega góð samt“.

Kyrrð og ró á nýju ári.
Kyrrð og ró á nýju ári.
mbl.is