Inga sammála um að ekkert fjall sé nógu hátt

Fæði, klæði, húsnæði.
Fæði, klæði, húsnæði. Samsett mynd

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir í samtali við mbl.is að hún hafi tekið ákvörðun um að mæta ekki í Kryddsíld að vel athuguðu máli. Þá kveðst Inga alsæl með túlkun áramótaskaupsins á sér og sínum flokki.

Inga var eini formaður stjórnmálaflokks sem ákvað að mæta ekki, fyrir utan Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, sem er í einangrun með Covid-19. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, mætti í hans stað en hún hafði losnað undan einangrun deginum áður.

Var það þá tilkynnt við upphaf Kryddsíldarinnar að Inga hefði neitað að mæta í þáttinn vegna veru Þórdísar. 

Í samtali við mbl.is segir Inga að margir þættir hafi spilað inn í en vera Þórdísar hafi verið einn af þeim. „Ég var farin að spá í að mæta ekki daginn áður. Svo þegar komin eru 1.600 smit og svo framvegis og litið er heildstætt yfir, með manninn minn með undirliggjandi sjúkdóma og annað slíkt, þá er ég ekki sú sem tek svona áhættu. Ég vil sýna samfélagslega ábyrgð og koma fram eins og manneskja sem sýnir fulla ábyrgð,“ segir Inga Sæland. 

Ólafía Hrönn í gervi Ingu Sæland sló í gegn.
Ólafía Hrönn í gervi Ingu Sæland sló í gegn. Skjáskot úr áramótaskaupi Rúv.
Inga Sæland með hanskana í kosningasjónvarpi RÚV í haust.
Inga Sæland með hanskana í kosningasjónvarpi RÚV í haust. Skjáskot/RÚV

Ræddi ákvörðunina við Þórólf

Hún kveðst ekki hafa tekið ákvörðunina í neinni reiði. Þá hafi hún rætt við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni um morguninn og það hafi styrkt hana í sinni afstöðu. 

Réð hann þér frá því að mæta?

„Nei hann ráðlagði mér ekki neitt. Ákvörðunin er alfarið mín.“

Spurð út í áramótaskaupið, þar sem persónu hennar brá oftar en einu sinni fyrir, segir Inga: „Mér fannst ég alveg æðislega skemmtileg! Mér fannst Flokkur fólksins vera stjörnum prýddur þarna og ég var mjög glöð með skaupið.“

Fannst þér þetta fanga stemninguna í Flokki fólksins?

„Já, það eru ekki til það há fjöll að við höfum ekki klifið þau. Við eigum auðvitað eftir að sýna úr hverju við erum gerð, það er ekki spurning.“

Ingi kvaddi með bjartsýniskveðju. „Ég held að árið 2022 verði alveg ofboðslega yndislegt ár og miklu betra en árið 2021 hvað varðar veiruna. Ég er full af bjartsýni og brosi hvað það varðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert