Margir töldu listasýninguna vera bilun

Ljósmynd/Ari

Verk listamannsins Hrafnkels Sigurðssonar eru nú sýnd á yfir 350 auglýsingaskjám um alla Reykjavík. Um er að ræða fimm daga listaverkasýningu og var Hrafnkell valinn úr hópi listamanna sem sóttu um að fá að vera með sýningu á tímabilinu 1.-5. janúar.

Viðburðurinn heitir Auglýsingahlé Billboard og það er auglýsingamiðillinn Billboard sem stendur fyrir honum. Listasafn Reykjavíkur fær svo verkið til eignar í sína safneign að Auglýsingahléinu loknu. 

„Það var efnt til samkeppni um verk á þessi skilti og ég sendi inn tillögu með verki sem ég átti tilbúið, verk sem er unnið alfarið í tölvu, svona stafrænt listaverk,“ sagði Hrafnkell í samtali við mbl.is.

„Það er gríðarlega langur tími á bak við hvert verk, þetta er ekki bara einhver filter eða effekt. Þetta er mjög flókið og langt ferli á bak við þessi verk og verkið heitir Upplausn, „Resolution“ á ensku.“

Hrafnkell Sigurðsson er listamaður sýningarinnar.
Hrafnkell Sigurðsson er listamaður sýningarinnar. Ljósmynd/HrafnkellSigurdsson.com

Ekki um bilun að ræða

Mbl.is bárust ábendingar um að bilun væri í hinum ýmsu auglýsingaskiltum um borgina. Það var þó alls ekki raunin heldur um að ræða listaverk Hrafnkels.

„Mér finnst það bara fyndið,“ sagði Hrafnkell aðspurður hvað honum fyndist um ábendingarnar.

„Ég held að ef þú skoðar þetta betur, horfir aftur og gefur þér tíma, þá kannski áttarðu þig á því að þetta er eitthvað meira en bilun.“

Hann segir að ef stoppað er og listaverkin skoðuð megi sjá að þau eru á hreyfingu og koma síðan ný verk klukkan tólf á miðnætti hverjum einasta degi meðan á listasýningunni stendur.

Ljósmynd/Ari

Fór lengra út í geim

Innblástur verkanna á listasýningunni segir Hrafnkell að sé fræg mynd úr Hubbles-stjörnusjónauka geimferðastofnunarinnar NASA. Sjónaukinn tók myndir af vetrarbrautum og var það lengsta sem tæknin nær að sjá út í alheiminn.

„Ég tók þessa mynd úr Hubbles-sjónaukanum og fór inn í myndina, stækkaði hana upp og fór að vissum skilningi lengra inn í myndina og út í geim, það er svona leikurinn og hugmyndin.

Það veit enginn hvað er þar en þess vegna get ég lagt fram þessa tillögu um að þetta gæti litið svona út sem er handan hins sjáanlega heims.“

Hægt er að kynna sér betur Hrafnkel og hans verk á heimasíðu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert